Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff og fyrrverandi varaformaður Samtaka atvinnulífsins, segir að Samherjamálið láti viðskiptalífið í heild sinni líta illa út, í samtali við Morgunútvarpið í morgun. Hún segir að þegar svona alvarleg mál komi upp þá verði Samtök atvinnulífsins (SA) að stíga fram og tala fyrir hönd atvinnulífsins.
Margrét bendir á að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafi sent frá sér yfirlýsingu strax daginn eftir Kveiksþáttinn. Í yfirlýsingunni hafi komið fram að þetta mál væri mjög alvarlegt og gæti ekki aðeins skaðað orðspor íslensks sjávarútvegs heldur einnig orðspor Íslands í heild sinni.
Aðspurð af hverju hún telji að SA hafi ekki séð sér fært að tjá sig um þetta mál segir Margrét að sjávarútvegurinn hafi að hennar mati alltaf haft miklu meira vægi innan samtakanna en atkvæðavægi þeirra hefur sagt til um. „Við vitum alveg að Samherjamenn eru ekki skaplausir menn. Þannig það er miklu betra vera í liði með Samherjamönnum heldur en á móti,“ segir Margrét.
Hún bendir enn fremur á að sjávarútvegurinn sé með 10 til 15 prósent vægi innan SA. „Það eru 85 prósent aðrir í atvinnulífinu sem vilja að SA stígi fram og lýsi því yfir að þetta sé með öllu óásættanleg og að svona starfi ekki alvöru fyrirtæki,“ segir Margrét.
Munur á að græða peninga og vera gráðugur
Margrét segir jafnframt að það sé himinn og haf á milli þess að græða peninga og vera gráðugur. Hún segir að Samherjamálið sýni svo mikla græðgi og að það sé ein af ástæðunum af hverju íslenska þjóðin sé svona reið.
„Þarna fer eitt ríkasta fyrirtæki Íslands að arðræna eitt fátækasta land í heimi. Eitthvað sem við getum ekki sætt okkur við og engan veginn samþykkt,“ segir Margrét og bendir á að Samherji hafi getað rekið arðbæra útgerð í Namibíu en einnig greitt skatta og stutt uppbyggingu í landinu. „Namibía hefði getað verið þeirra Siglufjörður,“ segir Margrét.
Aðspurð um tölvupóst Síldarvinnslunnar til Samherja um ráðleggingar um hvernig væri best að blekkja Grænlendinga, sem Fréttablaðið greindi frá í morgun, segir Margrét þetta vera hryllingssögu. „Ef fleiri svona mál koma upp þá er þetta eitthvað sem er miklu alvarlega en við gerum okkur grein fyrir í dag,“ segir Margrét.