Bára Halldórsdóttir hefur skipulagt málþing með það að markmiði að gefa þolendum „Klausturgate“ rödd og rými til að tjá sig og til þess að ræða Klausturmálið og eftirmál þess fyrir samfélagið, einkum og sér í lagi hvað það mál þýðir fyrir öryrkja, fatlaða og hinsegin fólk. Málþingið mun fara fram þann 20. nóvember næstkomandi í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar klukkan 16:00.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Báru og viðburði á Facebook.
„Nú er ár síðan að þingmenn Miðflokks sátu á Klausturbar þar sem þeir opinberuðu misbeitingu á valdi og vógu gróflega að samstarfskonum með niðrandi og kynferðislegum meiðyrðum. Málið, sem er núna þekkt undir nafninu Klausturgate, er orðið eitt af þekktasta hneykslismáli í íslenskri stjórnmálasögu.
Þeir þingmenn sem áttu aðild að Klausturgate málinu, þar á meðal maður sem var í forsvari kvenréttindabaráttunnar #heforshe, hafa engir þurft að sæta afleiðingum og sitja í þessum skrifuðum orðum á þingi – þar sem þolendur grófrar kynferðislegrar orðræðu þeirra þurfa enn að vinna með þeim. Í tilefni þess að eitt ár er liðið frá því að upptökurnar voru gerðar og síðan birtar i fjölmiðlum, hefur Bára skipulagt málþing til að ræða eftirmál Klausturgate. Nú gefst tilefni að gefa borgarbúum og þolendum ofbeldis orðið vegna niðrandi umræðu af hálfu Miðflokksins,“ segir í tilkynningunni.
Á málþinginu verður meðal annars fjallað um eftirfarandi spurningar: Hvert er regluverk Alþingis til að vernda kjörna fulltrúa frá áreiti og tryggja þeim öruggt starfsumhverfi? Hvað merkir það fyrir íslensku þjóðina ef fólk í valdastöðum þarf ekki að taka afleiðingum gjörða sinna og hvernig verndum við uppljóstrara?
Í tilkynningunni segir: „Jafnframt því sem Kolbrún Halldórsdóttir, verkefnisstýra í forsætisráðuneytinu fyrir úrbætur varðandi kynferðislegt ofbeldi, verður fundarstjóri málþingsins hefur Bára fengið í lið með sér Evrópu ráðið fyrir réttindi uppljóstrara (European Centre for Whistleblower Rights), Alþjóðlegt samstarf þinga í Genf (Interparliamentary Union) og Open Society Initative for Europe: Protecting the Right to hold Governments to Account sem hefur sent frá sér yfirlýsingu til stuðnings málstað Báru og þjóðarinnar.
Auk þess sem þolendurnir í umræðum alþingismanna Miðflokksins munu tjá sig, þar á meðal Freyja Haraldsdóttir fyrrum alþingiskona og aktivísti fyrir fólk með fatlanir, munu einnig taka til máls fulltrúi frá UN Women og Caroline Hunt-Matthes, heimsþekktur uppljóstari hylmingar Sameinuðu Þjóðanna um kynferðislegt ofbeldi. Caroline kemur einnig fram sem fulltrúi fyrir Alþjóðlegt samstarf þinga en á vegum þess er rekin sérdeild sem fjallar um ofbeldi gegn alþingiskonum. Mark Worth mun fjalla um málþingið á alþjóðlegum vettvangi. Worth er verðlaunaður rannsóknarblaðamaður og einn af helstu sérfræðingum um stefnumótanir og réttindi er varða uppljóstrara. Hann er einnig framkvæmdarstjóri European Center for Whistleblower Rights.“