Á fimmtudag var greint frá því að allir þingmenn Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar hefðu lagt fram sameiginlega þingsályktunartillögu um að skipuð verði sérstök þriggja manna rannsóknarnefnd Alþingis sem á að rannsaka hina svokölluðu fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Sú leið var við lýði á árunum 2012 til 2015 og gerði meðal annars Íslendingum sem áttu peninga erlendis, meðal annars í skattaskjólum, kleift að flytja þá peninga inn í íslenskt hagkerfi með allt að 20 prósent virðisaukningu. Viðkomandi gátu líka margir hverjir leyst út mikinn gengishagnað, enda höfðu þeir flutt fjármagnið út áður en krónan féll í hruninu. Þá fengu þeir ákveðið heilbrigðisvottorð um að peningarnir væru „hreinir“ með því að nýta sér leiðina, en umfjallanir Kjarnans á síðustu árum hafa sýnt að lítið sem ekkert var gert til að kanna raunverulegan uppruna þeirra fjármuna sem komu til landsins í gegnum leiðina. Alls var um að ræða 206 milljarða króna. Þar af komu íslenskir aðilar með 72 milljarða króna.
Á meðal annarra sem nýttu sér fjárfestingarleiðina var félag í eigu Samherja. Um er að ræða félagið Esju Seafood á Kýpur, sem tók við hagnaði af starfsemi Samherja í Namibíu. Esja Seafood lánaði öðru félagið Samherja, Kaldbaki, um 2,4 milljarða króna árið 2012 í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Í Stundinni á þriðjudag var greint frá því að Kaldbakur hafi meðal annars lánað enn öðru félagi Samherja, Kattanefi ehf., 300 milljónir króna til að fjárfesta í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Það félag var svo selt til Ramses II ehf., félags í eigu Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, árið 2017, á 325 milljónir króna. Samherji lánaði Ramses II fyrir kaupunum.
Rannsóknarnefndin, verði tillagan samþykkt, á að skila niðurstöðum sínum í skýrsluformi svo fljótt sem verða má og eigi síðar en 1. október 2020. Fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar er Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. Alls eru 17 þingmenn skrifaðir fyrir henni.
Tugir milljarða flæddu inn í landið
Alls fóru fram 21 útboð eftir fjárfestingaleiðinni frá því í febrúar 2012 til febrúar 2015, þegar síðasta útboðið fór fram. Á grundvelli útboða hennar komu um 1.100 milljónir evra til landsins, sem samsvarar um 206 milljörðum króna.
Ef þeir sem komu með þennan gjaldeyri til Íslands hefðu skipt þeim á opinberu gengi Seðlabankans, líkt og venjulegt fólk þarf að gera, hefðu þeir fengið um 157 milljarða króna fyrir hann. Virðisaukningin sem fjárfestingaleiðin færði eigendur gjaldeyrisins í íslenskum krónum var því 48,7 milljarðar króna. Skilyrt var að binda þyrfti féð sem fært var inn í landið með þessu hætti í fasteignum, verðbréfum, fyrirtækjum eða öðrum fjárfestingakostum. Því má segja að þeir sem hafi nýtt sér fjárfestingarleiðina hafi fengið um 20 prósent afslátt af þeim eignum sem þeir keyptu.
794 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboð fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði um 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi.
Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar. Afslátturinn, eða virðisaukningin, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjaldeyrinum á skráðu gengi Seðlabankans er um 17 milljarðar króna.
Í skýrslu sem Seðlabanki Íslands birti um fjárfestingarleiðina í sumar kom fram aflandsfélög frá lágskattasvæðum hefðu flutt inn 2,4 prósent af heildarfjárfestingu í gegnum leiðina. Eðlilegt væri, í ljósi sögunnar, að gagnrýna að það hefði verið gerlegt að ferja fjármuni frá slíkum svæðum í gegnum hana.