Losun frá vegasamgöngum hefur aukist gríðarlega á síðustu árum. Til að draga úr þeirri losun hafa stjórnvöld lagt mikla áherslu á að hraða orkuskiptum í samgöngum frá jarðefnaeldsneyti til umhverfisvænni samgangna. Í fyrra var hlutfall vistvænna ökutækja af fjölda ökutækja í umferð 6,7 prósent sem er töluverð aukning frá fyrra ári.
Losun frá vegasamgöngum stærsti þátturinn
Íslensk stjórnvöld hafa tilkynnt, í sambandi við Parísarsamkomulagið, að Ísland ætli að taka þátt í sameiginlegu markmiði með ríkjum Evrópusambandsins og Noregi um 40 prósent samdrátt í losun til ársins 2030 miðað við 1990 .
Í svari umhverfis-og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni, þingmanns Pírata, segir að til þess að Ísland geti staðið við þær skuldbindingar sínar sé ljóst að losun gróðurhúsalofttegunda frá ökutækjum hér á landi þurfi að dragast verulega saman. Enda sé sú losun stærsti einstaki þátturinn í losun á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda.
Hlutdeild vegasamganga í losun sem telst á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda, án landnotkunar og utan evrópsks viðskiptakerfis um losunarheimildir var 26 prósent árið 2005. Þetta hlutfall var komið upp í 34 prósent árið 2017 eða alls 975.000 tonn.
Sjö prósent bílaflotans vistvæn
Til að draga úr losun frá ökutækjum hafa stjórnvöld lagt mikla áherslu á að hraða orkuskiptum í samgöngum frá jarðefnaeldsneyti til umhverfisvænni samgangna og veittar hafa verið ívilnanir við kaup á umhverfisvænum farartækjum.
Í svari samgöngu- og sveitastjórnarráðherra við annarri fyrirspurn frá Birni Leví kemur fram að hlutfall vistvænna ökutækja af fjölda ökutækja í umferð hefur farið úr 2,7 prósentum árið 2016 í 6,7 prósent 2018. Samkvæmt markmiði um orkuskipti í samgönguáætlun er stefnt á að 10 prósent bifreiða verði knúnar með vistvænum orkugjöfum árið 2020.
Enn fremur stendur endurskoðun aðgerðaáætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum nú yfir. Í fyrrnefndu svari umhverfisráðherra kemur fram að aðgerðirnar varðandi orkuskipti í samgöngum og breyttar ferðavenjur miða að því að losun frá vegasamgöngum verði ekki meiri en um 500.000 tonn árið 2030 til að Ísland nái markmiðum sínum samkvæmt Parísarsamkomulaginu.
Ef losun Íslands verður ekki innan þeirra marka sem tilkynnt hafa verið til Parísarsamkomulagsins þarf Ísland að kaupa losunarheimildir til að standa við skuldbindingar sínar.
Parísarsamningurinn tók við að Kyotot-bókuninni en flest bendir til þess að losun Íslands á árunum 2013 til 2020 verði meiri en skuldbindingar Kyoto-bókunarinnar kveða á um. Ísland þarf því að gera upp skuldbindingar sínar með kaupum á svokölluðum losunarheimildum. Áætlaður kostnaður vegna þessa eru nokkur hundruð milljónir króna.