Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis telur að framlengja eigi virðisaukaskattsívilnun fyrir tengiltvinnbíla. Nefndin tekur þar undir sjónarmið bílainnflytjenda og Grænnar orku um að ekki sé tímabært að fella niður ívilnunina en samkvæmt nefndinni hafa tengiltvinnbíla enn mikið vægi þegar kemur að því að minnka heildarútblástur í samgöngum.
Þetta kemur fram áliti nefndarinnar um frumvarp fjármálaráðherra um breytingar á skattalögum vegna vistvænna farartækja.
Allt að nærri milljón króna lækkun
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði fram frumvarpið í október síðastliðnum til að greiða áfram fyrir orkuskiptum í samgöngum í samræmi við stefnu stjórnvalda í þeim efnum. Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að heimild til virðisaukaskattsívilnana fyrir rafmagns- og vetnisbíla verði framlengd til og með 31. desember 2023. Hins vegar er lagt til að virðisaukaskattsívilnun fyrir tengiltvinnbíla falli niður í lok næsta árs.
Tengiltvinnbílar notast við tvo mismunandi orkugjafa, bensín og rafmagn. Slíkir bílar hafa notið aukinna vinsælda á síðustu árum og eru þeir stærstur hluti þeirra nýorkubíla sem finna má hér á landi. Í júlí síðastliðnum taldi íslenski fólksbílaflotinn alls 220 þúsund bíla, þar af eru 3.155 hreinir rafmagnsbílar, um 7000 tengiltvinnbílar og 1551 metanbílar hér á landi.
Núverandi virðisaukaskattívilnun fyrir tengiltvinnbíla virkar þannig að ekki er lagður 24 prósent virðisaukaskattur á fyrstu fjórar milljónirnar af verði bílsins. Ívilnun á hvern bíl er því mest 960.000 krónur.
Enn henti tengiltvinnbílar betur út á landi
Ýmis samtök mótmælti í kjölfarið fyriráætlun stjórnvalda um að framlengja ekki ívilnun fyrir tengiltvinnbíla. Þar á meðal voru Græn orka, samstarfsvettvangur um orkuskipti, auk Bílgreinasambandsins og FÍB.
María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins, sagði í samtali við Morgunblaðið í nóvember síðastliðnum að ekki væri tímabært að fella á brot ívilnun fyrir slíka bíla. Hún sagði að þótt sala á nýorkubílum hafi gengið vel undanfarið séum við Íslendingar ekki komnir mjög langt í orkuskiptum bílaflotans.
Hún sagði að þegar Norðmenn, sem og Bretar, drógu úr ívilnunum vegna tengiltvinnbíla þá hefði salan dregist verulega saman í löndunum í kjölfarið. „Við teljum að við þurfum að ná hærra hlutfalli af umhverfisvænum bílum á götunni, þar með talið tengiltvinnbílum. Úti á landi henta tengiltvinnbílar betur en t.d. bílar sem eru alfarið rafknúnir enn sem komið er,“ sagði María.
Svipuð sjónarmið komu fram við meðferð málsins hjá efnahags- og viðskiptanefnd, þar að segja að afnám ívilnana á tengiltvinnbílum muni hægja á rafbílavæðingu þjóðarinnar.
Hámarkið lækki í staðinn
Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins um gerð frumvarpið er tekið fram að meðal annars hafi verið litið til þess að tengiltvinnbílar ættu að vera orðnar samkeppnishæfar á þessum tíma sem og þess að mikil uppbygging hefði átt sér stað og væri fyrirhuguð í tengslum við hleðslustöðvar. Samkvæmt mati ráðuneytisins er ekki þörf á ívilnununum fyrir tengiltvinnbíla til lengri tíma en til loka árs 2020.
Efnahags- og viðskiptanefnd segist hafa skilning á þessu sjónarmiði ráðuneytisins en nefndin telur þó ekki tilefni til þess að ívilnunin falli niður með öllu í lok árs 2020.
Nefndin leggur í staðinn til að fjárhæðarmark ívilnunarinnar lækki í nokkrum áföngum og að gildistími hennar verði framlengdur til 31. desember 2022. Hámark fjárhæðarinnar lækki þannig úr 960.000 krónum í 600.000 í lok árs 2020 og í 480.000 í lok árs 2021.
Að auki leggur nefndin til að hámarksfjöldi þeirra bíla sem notið geta ívilnunarinnar verði hækkaður í 15.000 til samræmis við hámarksfjölda hreinorkubifreiða. Nefndin áréttar þó að hún telji nauðsynlegt að ráðuneytið taki þetta atriði til endurskoðunar á árinu 2021 og kanni hvort ástæða sé til að framlengja ívilnunina frekar.