Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SFF) hafa sent kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna brotalama á framkvæmd hópuppsagna á Íslandi. Kvörtunin er send eftir að samtökin komust að þeirri niðurstöðu að Arion banki hefði ekki farið að lögum um hópuppsagnir þegar bankinn sagði upp 102 starfsmönnum í september 2019, meðal annars með vísun í að ávöxtun eigin fjár bankans væri ekki nægilega góð.
Í bréfi sem samtökin sendu Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, og til velferðarnefndar Alþingis í dag segir að niðurstaða skoðunar SFF hafi verið sú að Arion banki hefði ekki virt skyldu sína til samráðs við trúnaðarmenn starfsmanna með neinum raunhæfum hætti í aðdraganda uppsagnanna og hafi þannig brotið gegn ákvæðum laga um hópuppsagnir. „Þó sé jafnframt ljóst að lögin hafi ekki að geyma nein raunhæf réttarúrræði til að bregðast við brotum af þessum toga. Með bréfi þessu er ætlun SFF aog ASÍ að vekja athygli ráðherra og þingnefndar á þessum annmörkum sem virðast vera á lögum um hópuppsagnir“.
SFF segir að gera þurfi bragabót á lögunum til að þau hafi eitthvað raunverulegt gildi, en séu ekki einungis „orðin tóm“ þar sem brot á þeim séu „algjörlega viðurlagalaus“.
Auk þess telja samtökin að íslenska ríkið kunni að hafa brotið gegn skyldum sínum til að innleiða ákveðna tilskipun Evrópusambandsins um hópuppsagnir og að hún hafi ekki verið rétt innleidd á sínum tíma. Vegna þess sé samráð við stéttarfélög við framkvæmd hópuppsagna ófullnægjandi. Vegna þessa hefur SFF sent inn kvörtun til ESA.
Spöruðu sér 1,3 milljarð á ársgrundvelli
Arion banki greindi frá því þann 26. september 2019 að bankinn hefði sagt upp 102 manns. Uppsagnirnar höfðu legið í loftinu í nokkurn tíma. Kjarninn greindi til að mynda frá því þremur dögum áður að búist væri við stóru hagræðingarskrefi hjá bankanum og að lækkun á rekstrarkostnaði yrði fyrst og síðast náð með fjöldauppsögnum.
Með uppsögnunum ætlar Arion banki að spara sér 1,3 milljarð króna í rekstrarkostnað á ári. Í tölvupósti sem Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, sendi til starfsmanna sama dag og tilkynnt var um uppsagnirnar, sagði meðal annars að stjórnendur bankans teldu „aðstæður í umhverfi bankans, eiginfjárkröfur, skattar og harðnandi samkeppni, sem og háan rekstrarkostnað, vera þess eðlis að ekki sé lengur hjá því komist að gera breytingar sem miða að því að einfalda starfsemina. Við þurfum að aðlaga okkur að aðstæðum hverju sinni.“
Uppsagnirnar voru liður í vegferð bankans að ná settum markmiðum um 50 prósent kostnaðarhlutfall og arðsemi eigin fjár umfram tíu prósent. Arðsemi Arion banka hefur verið langt frá því markmiði undanfarið og búist er við að hún hafi verið undir einu prósenti í fyrra, en ársreikningur bankans verður birtur síðar í þessari viku.