Tala látinna og sýktra vegna nýju kórónaveirunnar hefur hækkað gríðarlega eftir að heilbrigðisyfirvöld i Kína breyttu aðferðum sínum við samantektir sínar. Samkvæmt tölum sem birtar voru í dag hafa tæplega 1.400 látist vegna veirunnar í landinu. 254 ný dauðsföll hafa verið skráð í Hubei-héraði einu saman en þar er faraldurinn talinn eiga upptök sín. Þá hafa verið 15 þúsund ný tilfelli smits verið staðfest í héraðinu og þar með um 60 þúsund í öllu landinu frá því í desember. Enn er unnið að því að uppfæra tölur fyrir önnur héruð landsins.
Heilbrigðisyfirvöld í Hubei segja að héðan í frá verði tölur um sýkta og látna byggðar á fleiri greiningarþáttum en áður. Nú verði einnig greiningar sem gerðar eru með tölvusneiðmyndum (CT) teknar með í reikninginn en ekki aðeins tilfelli sem greind hafa verið með þar til gerðum prófum.
Þessi breyting er gerð í kjölfar ásakana um að yfirvöld séu að greina rétt og satt frá raunverulegri útbreiðslu faraldursins. Þá hafa próf sem notuð eru til greiningar verið af skornum skammti og fjölmargir sjúklingar hafa ekki fengið þá meðferð sem þeir þurfa.
Til ýmissa róttækra aðgerða hefur verið gripið í Kína til að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar. Í borginni Shiyan í Hubei-héraði hefur algjört útgöngubann verið sett á, líkt og þegar stríðsástand ríkir. Einungis þeir sem vinna við að berjast gegn veirunni mega yfirgefa heimili sín. Allar byggingar í borginni hafa verið innsiglaðar.
Samanburðurinn við svínaflensuna
Pistlahöfundur China Daily, Mario Cavolo, ber í nýjum pistli saman áhrif svínaflensunnar árið 2009 og nýju kórónaveirunnar, Cavid-19. Hann rifjar upp að sú flensa, sem var af völdum H1N1-veirunnar, hafi verið mjög skæð í Bandaríkjunum. Í fyrstu hafi verið greint frá því að um 60 milljónir manna hafi sýkst af henni og yfir 18 þúsund látist.
Hins vegar hafi nýrri rannsóknir sýnt að mannfallið var mun meira eða um 300 þúsund.
„Þess vegna er ég að klóra mér í höfðinu yfir hinum undarlegu neikvæðu öflum sem ráðast á Kína og Kínverja í umfjöllun um kóróna-veiruna sem átti upptök sín í Wuhan í miðhluta Kína,“ skrifar hann og heldur áfram: „Á meðan H1N1-faraldurinn geisaði árið 2009 minnist ég þess ekki að hafa heyrt um kynþáttafordóma í garð Bandaríkjamanna um allan heim. Gerir þú það?“
Hann spyr svo hvort að einhver ríkisstjórn hafi á þessum tíma sent borgurum sínum í Bandaríkjunum skilaboð um að yfirgefa landið, jafnvel ekki eftir að svínaflensan hafði breiðst út um alan heim. „Neibb, ekki píp,“ svarar hann sjálfum sér.
Hann segir allt annað uppi á teningnum núna. „Eitthvað er ekki í lagi gott fólk. Ég er að lesa um hatursfullar árásir á kínversk stjórnvöld um þeirra meinta alþjóðlega samsæri um að draga vísvitandi úr tölum um smit.“
Cavolo segir að mat á fjölda sýktra og látinna sé alltaf vandamál í faröldrum sem þessum. Þannig hafi fjöldi sýktra og látinna af völdum svínaflensunnar á sínum tíma verið stórlega vanmetinn lengi vel. Ýmsar skýringar liggi þarna að baki. Veirunni sé slétt sama í hvaða landi, innan hvaða landamæra, hún kemur sér fyrir. Þá vanti oft tól til að greiningar, eins og hafi nú gerst í Kína. Það vanti heilbrigðisstarfsfólk og sjúkrahús.
„Þetta eru staðreyndir og ekki vandamál sem bundið er við kínverskt heilbrigðiskerfi eða stjórnvöld. Þetta er ekki samsæri, aðeins harmleikur.“