Ólafur Margeirsson, doktor í hagfræði, segir í stöðuuppfærslu á Facebook að engin ástæða sé til að „panikka“ þótt álverið í Straumsvík loki.
Ástæða skrifanna er að fram hefur komið í fréttum að Landsvirkjun eigi nú í samtali við Rio Tinto, eiganda álversins í Straumsvík, en fyrirtækið tilkynnti í vikunni að það ætlaði að hefja „sérstaka endurskoðun á starfsemi álversins í Straumsvík til að meta rekstrarhæfni þess til framtíðar.“
Ólafur lætur fylgja með töflu með útflutningi á Íslandi en hann bendir á að Straumsvík sé að baki sirka 20 prósentum af grænu línunni – sem merkir ál og álafurðir.
„Athugið að til að geta flutt út um 220 milljarða af áli þarf að flytja inn aðföng (t.d. súrál) að andvirði 100 milljarða. Og sé miðað við hlutfallslega stærð Straumsvíkur af heildaráliðnaðinum á Íslandi (20%) má geta sér til um að innlendur kostnaður Straumsvíkur (sem eru tekjur fyrirtækja, starfsmanna og hins opinbera á Íslandi) sé um 15 milljarðar á ári. Þetta er byggt á tölum frá Samtökum Álframleiðenda á Íslandi,“ skrifar hann.
Landsvirkjun mun finna aðra kaupendur að orkunni
Þess vegna segir hann að engin ástæða sé til að óttast þótt Straumsvík loki, 15 milljarðar á ári sé rétt um hálft prósent af árlegri landsframleiðslu.
„Og Landsvirkjun mun með tíð og tíma finna aðra kaupendur að orkunni – fyrir utan að ef móðurfélagsábyrgðin á raforkusamningnum er virk er tap Landsvirkjunar takmarkað og hún getur, í raun, selt sömu orkuna tvisvar (einu sinni til álvers sem ákveður síðar að láta sig hverfa áður en raforkusamningurinn rennur út en móðurfélagið þarf að borga og svo aftur til nýs kaupanda sem t.d. byggir gróðurhús eða einhvern annan fjandann á svæðinu/annars staðar).“
Hann hvetur því fólk frekar til þess að láta sér detta eitthvað sniðugt í hug varðandi hvað eigi að gera við orkuna.
Hér er útflutningur á Íslandi. Straumsvík er að baki ca. 20% af grænu línunni. Athugið að til að geta flutt út um 220...
Posted by Ólafur Margeirsson on Friday, February 14, 2020