Eldri konur af erlendum uppruna sem eiga heima á Íslandi hafa ekki fengið mikla athygli í umræðu um innflytjendur og fáar, ef nokkrar, rannsóknir eru til sem snúa að þeim. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem unnin var af Háskóla Íslands í samstarfi við öndvegisverkefnið Þverþjóðleiki og hreyfanleiki á Íslandi að beiðni félagsmálaráðuneytisins. Unnur Dís Skaptadóttir og Kristín Loftsdóttir, prófessorar í mannfræði við HÍ, unnu skýrsluna.
Viðmælendur skýrsluhöfundanna bentu á að eldri konur væru „eiginlega ósýnilegar“ í umræðunni um innflytjendur. Þetta væri stækkandi hópur sem gæti af ýmsum ástæðum verið í viðkvæmri stöðu og því nauðsynlegt að beina sjónum að þeim sérstaklega.
Lítið vitað um ofbeldi eða áreitni sem eldri konur verða fyrir
Viðmælendur sem ræddu um þennan hóp bentu á að eldri konur af erlendum uppruna væru oft einangraðar og því lítið vitað til dæmis um ofbeldi eða áreitni sem þær gætu hafa orðið fyrir. Sjaldgæft væri að þær leituðu sér aðstoðar vegna heimilisofbeldis.
Viðmælandi benti á að þær kæmu oft til Íslands í gegnum fjölskyldusameiningu til að aðstoða á heimili barna sinna og gæta barnabarna. Viðmælandinn benti á að þær töluðu oftast hvorki íslensku né ensku og þær sæktu ekki þjónustu á vegum velferðarsviðs, svo sem að fá heimsendan mat, ferðaþjónustu, dagdvöl eða heimaþjónustu. Vegna þess hversu lítið er vitað um hópinn sé óvíst hvort ástæður þess séu skortur á upplýsingum eða aðrar ástæður, til dæmis að eldra fólkið dvelji á heimilum barna sinna sem sjái um það.
Margþætt vandamál varðandi framfærslu
Enn fremur benti viðmælandi á að innflytjendur hefðu oft ekki búið nægilega lengi á Íslandi til að fá fullar greiðslur ellilífeyris eða örorkulífeyris og fengju mögulega engar greiðslur frá upprunalandi sínu. Slík búsetuskerðing hefði verið mjög mikið vandamál fyrir konur af erlendum uppruna á ellilífeyrisaldri.
Jafnframt nefndi þessi viðmælandi að ef fólk fengi synjun á ellilífeyri eða mikla skerðingu á greiðslum frá Tryggingastofnun leitaði það til sveitarfélaganna. Það gæti hins vegar verið snúið því að sveitarfélögin óskuðu eftir gögnum frá heimalandinu til þess að sanna að engar greiðslur bærust þaðan. Það væri ekki hlaupið að því að fá slíka staðfestingu. Yfirleitt fengi fólk ekki neinar greiðslur frá upprunalandinu en gæti þó ekki sýnt fram á það.
Verið að halda fólki í fátækt
Annar viðmælandi benti á að í sumum tilfellum þyrftu hjálparsamtök að aðstoða eldra fólk í þessari stöðu þar sem það byggi við fátækt. „Það er eitt sem mér finnst skipta máli – og þá er ég ekki bara að tala um erlendar konur – en fólk sem flytur hingað til lands, þegar það kemst á eftirlaunaaldur, þá fær það til dæmis ekki fullan ellilífeyri, þannig að þarna er verið að halda fólki í fátækt,“ sagði viðmælandinn.
Einn viðmælandinn nefndi að erfitt gæti væri fyrir eldri innflytjendur að finna upplýsingar um réttindi aldraðra og þjónustu við þá vegna þess að það væri flókið. Mikið af upplýsingunum og umsóknarblöðum væri á rafrænu formi og á íslensku. Viðmælandi nefndi að hún sjálf hefði þurft að sækja um sjúkradagpeninga og henni hefði fundist það erfitt; samt hefði hún oft aðstoðað fólk við það áður.