Nýja kórónuveiran, Covid-19, hefur nú breiðst út til tæplega fimmtíu landa í öllum heimsálfum utan Suðurskautslandsins. Að minnsta kosti 2.708 hafa látist, allir nema 53 á meginlandi Kína. Í gær voru fleiri ný tilfelli greind utan Kína en innan þess í fyrsta sinn. Yfir 81 þúsund manns hafa sýkst, þar af um 79 þúsund í Kína.
Langflestir hafa náð fullum bata en fréttir berast nú frá kínverskum yfirvöldum að 14% sýktra sem náð hefðu heilsu og verið útskrifaðir af sjúkrahúsum hafi greinst með veiruna á ný. Sambærilegt dæmi er að finna í Japan. Kona fimmtugsaldri sem sýktist og var útskrifuð hefur aftur greinst.
Enn er því margt á huldu um hvernig veiran hagar sér. Aðeins eitt tilvik hefur greinst í Afríku enn sem komið er og eitt í Suður-Ameríku. Um 400 hafa greinst með sýkinguna á Ítalíu og þaðan er sýkingin talin hafa breiðst út til Þýskalands og Frakklands. Í dag voru svo staðfest tilvik í Danmörku, Eistlandi og Rúmeníu.
Þar sem um veirusýkingu er að ræða duga sýklalyf ekki til að vinna á henni. Bati stjórnast af styrk ónæmiskerfis hvers og eins og flestir þeirra sem hafa látist hafa verið með undirliggjandi sjúkdóma.
Í ráðleggingum til ferðamanna á vef embættis landlæknis kemur fram að sóttvarnalæknir mælir með að ferðamenn sleppi ónauðsynlegum ferðalögum til skilgreindra áhættusvæða þar sem COVID-19 faraldur er í gangi og samfélagssmit er talið útbreitt. Hafa beri í huga þau áhrif sem aðgerðir stjórnvalda á þeim svæðum geti haft á ferðaáætlanir og fylgjast þurfi vel með fréttum, þarlendis og á vef embættis landlæknis þar sem skilgreiningar á svæðum með viðvarandi smit getu breyst hratt.
Í frétt frá sóttvarnarlækni er það sérstaklega tekið fram að ekki sé lagst gegn skíðaferðum til skíðasvæða í Ölpunum á Norður-Ítalíu. Enn sem komið er hafa engin tilfelli verið staðfest þar.
Einstaklingar, með búsetu á Íslandi, sem hafa verið á skilgreindum áhættusvæðum og snúa heim eru hvattir til að halda sig heima í 14 daga eftir að þeir hafa yfirgefið skilgreind áhættusvæði. Ef þeir fá einkenni frá öndunarfærum, sérstaklega með hita, skulu þeir hafa samband við Læknavaktina í síma 1700 eða sína heilsugæslu símleiðis en ekki mæta óboðaðir á sjúklingamóttökur.
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, ákvað í gær að lýsa yfir neyðarástandi þrátt fyrir að Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, WHO, hafi ekki enn lýst því yfir að um heimsfaraldur sé að ræða. „Við teljum að hættan á því að heimsfaraldur breiðist út sé mikið undir okkur komin,“ sagði Morrison. Því hafi hann ákveðið að hefja undirbúning að viðbrögðum við slíkum faraldri.
Donald Trump forseti Bandaríkjanna segist ekki telja hættu á mikilli útbreiðslu þar í landi. Manneskja í Kaliforníu sem ekki er vitað til að hafi átt í neinum samskiptum við sýkt fólk og hefur ekki komið til landa þar sem sýkingin er útbreidd hefur nú greinst með veiruna. Langflestir smitaðra í sem greinst hafa í Bandaríkjunum höfðu verið í Wuhan. Sérfræðingar hafa því nokkrar áhyggjur af hinu nýja tilfelli í Kaliforníu. „Það þýðir að það eru einhver tilfelli þarna úti sem ekki eru greind,“ segir William Schaffner, sérfræðingur í veirusjúkdómum, í samtali við New York Times.
Upptök nýju kórónuveirunnar eru rakin til markaðar í kínversku borginni Wuhan. Fyrstu tilfellin greindust í desember. Mikil ferðalög voru á fólki vegna kínverska nýársins nokkrum vikum síðar sem jók á hraða útbreiðslunnar í landinu. Kínversk stjórnvöld hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að bregðast ekki fyrr við, sérstaklega í ljósi þess að vísbendingar eru um að þegar í desember hafi verið vitað að veiran gæti borist manna á milli, ekki aðeins frá dýrum í menn.
Misvísandi skilaboð
Stjórnvöld víða um heim hvetja borgarana til að halda ró sinni. Bent hefur verið á að í flestum tilvikum eru einkenni sýkingarinnar sambærileg og þau sem hefðbundin inflúensa veldur. Og að flestir nái fullum bata. Á sama tíma er greint frá umfangsmiklum aðgerðum stjórnvalda í ýmsum löndum: Landamærum er lokað og heilu borgirnar og svæðin sett í sóttkví. Ákveðið hefur verið að loka öllum skólum í Japan frá 2. mars svo dæmi sé tekið og skólastjórnendur í Bretlandi hafa sumið hverjir tekið ákvarðanir um lokun upp á sitt einsdæmi.
Þetta gæti virkað eins og misræmi í þeim skilaboðum sem almenningur fær. „Ég held að ruglingurinn sem fólk finnur fyrir skýrist meðal annars af því hvernig við sem einstaklingar metum hættu. Við lítum á hættu með allt öðrum hætti en stjórnvöld gera fyrir heilu löndin,“ segir Hannah Devlin, vísindablaðamaður breska dagblaðsins Guardian.
Hún segir að sem einstaklingar höfum við ákveðna hugmynd um þá hættu sem við erum tilbúin að setja okkur í eða teljum steðja að okkur. Það er persónulegt mat og getur verið mismunandi milli fólks. En stjórnvöld eru ekki að hugsa um meðal manninn, „þau eru ekki að hugsa um þig,“ bendir Devlin á. Þau eru að hugsa um samfélagið í heild, þá sem eru viðkvæmastir fyrir sýkingum, s.s. eldra fólk, börn með astma og óléttar konur.
Stjórnvöld þurfa líka að gera ráð fyrir alvarlegustu stöðu sem upp geti komið. Bresk yfirvöld gáfu til dæmis út spá í vikunni þar sem sagði að allt að hálf milljón Breta gætu dáið úr veirusýkingunni. Þá var miðað við að 80% þjóðarinnar myndi smitast. Það er hins vegar afar ólíklegt að það gerist.
Devlin segir að hættan sé hins vegar sú að þegar almenningur sjái tölur sem þessar verði hann hræddur. Á sama tíma sé hann að fá skilaboð um að halda ró sinni. Þetta geti orðið til þess að traust á yfirvöldum minnkar.
Þetta er til dæmis það sem gerst hefur í Íran. Almenningur telur stjórnvöld vera að draga úr hættunni, ekki birta réttar upplýsingar um smit og svo framvegis. Aðstoðar heilbrigðisráðherrann sást ítrekað þurrka svita af enninu er hann gaf skýrslu um stöðuna fyrr í vikunni og sagði að stjórnvöld í Íran hefðu stjórn á útbreiðslunni. Daginn eftir var hann kominn í sóttkví, sjálfur smitaður af veirunni.
Í Bretlandi er fólk ekki að draga tölur sem gefnar eru út í efa en sumir eru samt að upplifa að verið sé að gefa misvísandi skilaboð. Devlin rifjar upp að Matthew Hancock, heilbrigðisráðherra, hafi grínast með það í vikunni að hann myndi líklega ekki leggja í ferðalag til Norður-Ítalíu núna. Það stangast hins vegar á við almennar ráðleggingar breskra yfirvalda.
„Þegar faraldur geisar skiptir hegðun fólks öllu máli þegar kemur að útbreiðslu hans,“ segir Devlin. „Það skiptir máli að það fari eftir leiðbeiningum, láti vita um einkenni og fylgir fyrirmælum um að vera í sóttkví. Því er samband yfirvalda og almennra borgara gríðarlega mikilvægt og að traust ríki þar á milli.“