Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að ekkert verði af því að fyrirtækið skimi fyrir nýju kórónuveirunni meðal almennings. Alma Möller landlæknir sagði frá því á blaðamannafundi í gær að Kári hefði boðið fram aðstoð sína og fyrirtækisins. Sagði hún að eftir ætti að útfæra málið.
Nú er ljóst að af þessu verður ekki.
„Það er illvígur veirufaraldur að ganga yfir landið. Það var okkar mat og annarra að það væri mikilvægt að geta fylgst með útbreiðslu veirunnar og því hvernig hún stökkbreytist þegar hún ferðast milli fólks,“ skrifar Kári á Facebook-síðu sína.
Fimmtíu manns hafa nú greinst með veiruna á Íslandi. Meðal hinna smituðu er eins árs gamalt barn.
„Við buðumst til þess að hlaupa undir bagga með heilbrigðiskerfinu og skima fyrir veirunni og raðgreina hana þar sem hún finnst þannig að það væri vitað hvar hún er og í hvaða formi,“ segir Kári. „Það leit út fyrir að boð okkar væri þegið. Nú kemur í ljós að Vísindasiðanefnd/Persónuvernd líta svo á að þessi tilraun okkar til þess að taka þátt í aðgerðum heilbrigðiskerfisins beri að líta á sem vísindarannsókn og við yrðum að sækja um leyfi til þeirra.
Það munum við ekki gera vegna þess að af okkar hálfu átti þetta að vera þátttaka í klínískri vinnu en ekki vísindarannsókn. Þess vegna verður ekkert af okkar framlagi að þessu sinni. Þetta er endanleg ákvörðun.“
Í dag hefur sýking af völdum COVID-19 verið staðfest hjá um 105.479 manns í heiminum og um 3.555 hafa látist eða 3,4% sýktra. Samkvæmt John Hopkins hafa 58.354 einstaklegar náð sér eftir veikindin.
Kína, Suður-Kórea, Íran, Ítalía og skíðasvæðið Ischgl í Austurríki eru skilgreind áhættusvæði. Danir hafa hækkað aðvörunararstig vegna ferða til Frakklands, Þýskalands, Spánar og Austurríkis úr grænu í gult í 2, sem þýðir sýnið mikla aðgætni . Eins hafa þeir hvatt til þess að samkomum með fleiri en 1.000 þátttakendum verði frestað út mars. Fjölmargar alþjóðastofnanir hafa sent tilkynningu um frestun á stórum fundum, boðað til fjarfunda eða sett á fjöldatakmarkanir, segir í samantekt almannavarna um stöðu útbreiðslunnar og viðbragða í heiminum.
Það er illvígur veirufaraldur að ganga yfir landið. Það var okkar mat og annarra að það væri mikilvægt að geta fylgst...
Posted by Kari Stefansson on Saturday, March 7, 2020