Danir tilkynntu í morgun um hertar aðgerðir vegna COVID-19 nú þegar veiran heldur áfram að breiðast út um Evrópu. Forsætisráðherrann segir að fólk hafi ekki tekið vánni nógu alvarlega. Á Ítalíu er sömu sögu að segja, mjög hertar varúðarráðstafanir eru nú þar í gildi og fólk hvatt til að vera heima nema að það þurfi nauðsynlega að ferðast starfa sinna vegna.
Fólk sem er sýkt af nýju kórónuveirunni er einkennalaust í fimm daga að meðaltali samkvæmt nýrri rannsókn. Dæmi eru þó um að sýktir séu einkennalausir í allt að tvær vikur. Niðurstaðan staðfestir mikilvægi sóttkvíar. „Miðað við okkar greiningu á þeim gögnum sem ligja fyrir þá er fjórtán daga sóttkví sem nú er mælt með skynsamleg,“ hefur breska dagblaðð Guardian eftir Justin Lessler, aðalhöfundi rannsóknarinnar sem gerð var við Johns Hopkins Bloomberg School of Public Health.
Rannsóknin leiddi ekki í ljós hvenær einkennalaust fólk sem sýkt er af veirunni getur smitað aðra. Vísbendingar eru þó um smithættu í að minnsta kosti stuttan tíma áður en veikindi fara að gera vart við sig.
Í 98% tilfella fær fólk einkenni COVID-19 innan 11,5 daga frá því að það smitast. Það þýðir, að mati höfunda rannsóknarinnar, að um 101 af tíu þúsund mönnum sem fara í sóttkví í tvær vikur fá einkenni eftir að henni lýkur.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í vísindatímaritinu Annals of Internal Medicine. Í henni var 181 tilfelli frá Kína og öðrum löndum skoðað. Flest tilfellin voru tengd ferðalögum til Wuhan, kínversku borginni þar sem veiran á upptök sín.
Hinn fimm daga langi meðgöngutími, þ.e. tími frá því að fólk smitast og þar til einkenna verður vart, er sambærilegur meðgöngutíma SARS- og MERS-veiranna sem einnig ollu faröldrum. Kórónuveirur sem valda almennu kvefi hafa hins vegar styttri meðgöngutíma eða um þrjá daga.
Höfundar rannsóknarinnar leggja hins vegar áherslu á að fólk eigi ekki að túlka niðurstöðurnar á þann veg að það sé heilbrigt sýni það engin einkenni fyrtu fimm dagana eftir að grunur um smit vaknar. „Það er algjörlega röng túlkun,“ hefur Guardian eftir Graham Cooke, prófessor í faraldsfræðum við Imperial College í London. „Eftir fimm daga hefur helmingur fólks ekki enn sýnt einkenni.“
Dauðsföll yfir fjögur þúsund
Í dag hafa 114.544 manns greinst með veiruna og dauðsföllin af hennar völdum eru komin yfir fjögur þúsund. Mjög hefur hægt á smitum bæði í Kína og Suður-Kóreu en smituðum í öðrum löndum, m.a. Ítalíu, fjölgar hratt. Þar í landi hafa 463 dauðsföll verið rakin til COVID-19, sjúkdómsins sem veiran veldur og hafa stjórnvöld gripið til þess ráðs að herða mjög á ferðatakmörkunum og setja á samkomubann. Forsætisráðherrann Giuseppe Conte segir þetta gert til að vernda viðkvæmustu hópa fólks. „Við þurfum öll að fórna einhverju fyrir velferð Ítalíu,“ sagði hann í sjónvarpsávarpi í morgun. „Og við verðum að gera það núna.“
Conte lýsti aðgerðunum með setningunni „ég verð heima“ – sem vísar til þess að fólki er bannað að safnast saman á almannafæri. „Ekkert meira næturlíf, við getum ekki leyft það lengur því við slík tilefni er hætta á smiti.“
Aðeins þeir sem þurfa nauðsynlega að mæta til vinnu utan heimilis og þeir sem þurfa að sinna ættingjum fá að ferðast. Lestarstöðvar og flugstöðvar eru vaktaðar og þeir sem hyggjast nýta sér þessa samgöngumáta þurfa að gera grein fyrir ferðum sínum.
Aðgerðir vegna faraldursins hafa einnig verið hertar í mörgum öðrum löndum. Allir þeir sem koma til Ísraels þurfa nú að fara í tveggja vikna sóttkví svo dæmi sé tekið.
Dönsk stjórnvöld gripu einnig til hertra aðgerða í morgun. Fólk er hvatt til að ferðast til og frá vinnu utan háannatíma og farþegar almenningssamgangna skulu gæta þess að standa ekki nálægt hver öðrum. Flugferðum frá áhættusvæðum, m.a. Íran, Kína og svæðum í Suður-Kóreu, Austurríki og Ítalíu, verður aflýst með öllu. Þær takmarkanir taka gildi á miðnætti og munu vara í að minnsta kosti fjórtán daga. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hvetur fólk til að taka ástandið alvarlega. „Allir þurfa að breyta hegðun sinni til vernda þá sem eru viðkvæmastir,“ sagði hún á blaðamannafundi í dag. Hún benti á að nýja kórónuveiran væri að breiðast hratt út, mun hraðar en venjuleg inflúensa.
Á Íslandi hafa nú 65 greinst með veiruna og um 500 manns eru í sóttkví. Í gær var ákveðið að skilgreina skíðasvæði í öllum Ölpunum, ekki aðeins á Norður-Ítalíu og í Austurríki, sem áhættusvæði. Fólk sem hefur verið þar á ferð frá því í lok febrúar þarf að fara í sóttkví.