Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, greindi í gærkvöldi frá fyrsta dauðsfallinu í landinu af völdum COVID-19. Um er að ræða aldraða manneskju með undirliggjandi sjúkdóm sem hafði verið lögð inn á háskólasjúkrahúsið í Ósló vegna veikinda.
Solberg sagði í samtali við norska ríkisútvarpið að hinar hertu aðgerðir sem gripið hefur verið til í landinu væru einmitt til að vernda viðkvæma hópa eins og þá sem þessi einstaklingur tilheyrði. „Til að sýna þessu fólki samstöðu reynum við að hefta útbreiðsluna eins og við getum.“
Landlæknisembættið í Noregi býst við fleiri dauðsföllum vegna sjúkdómsins næstu daga.
„Fyrst og fremst er þetta sorglegt en minnir okkur á hversu alvarlegur þessi faraldur getur verið,“ sagði Camilla Stoltenberg landlæknir við NRK.
Í Noregi hafa greinst 489 smit og tíu af þeim hafa verið lagðir inn á sjúkrahús.
Dauðsfallið varð sama dag og gripið var til harðra aðgerða í Noregi vegna útbreiðslunnar. Ekki hefur verið beitt harðari aðgerðum á friðartímum, segir í frétt NRK.
Ákveðið hefur verið að loka skólum og fjölmörgum samkomustöðum sem og að aflýsa mörgum viðburðum. Einnig var ákveðið að allir þeir sem hefðu ferðast til útlanda eftir 27. febrúar skuli í sóttkví.