Af erlendum fréttamyndum að dæma mætti halda að andlitsgrímur væru staðalbúnaður á þeim svæðum þar sem nýja kórónuveiran hefur breiðst hratt út. Mikið magn þeirra hefur einnig selst hér á landi og dæmi eru um að fólk beri þær nú fyrir vitum er það fer að versla í matinn. En gera þær raunverulegt gagn og þá hvernig?
„Það hefur í sjálfu sér ekki mikið segja að nota andlitsgrímu til að verja sjálfan sig [smiti],“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir spurður um málið á daglegum upplýsingafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í gær.
Hann sagði að grímur gætu virkað að ákveðnu leyti og hanskar sömuleiðis en að notkun þessa hlífðarbúnaðar gæti þó gefið falskt öryggi. Benti hann á að andlitsgrímur virki aðeins í ákveðinn tíma því þegar þær blotna í gegn, sem þær gera smám saman þegar fólk andar í þær, þá eru þær gagnslausar eða gagnslitlar.
Sama má að sögn Þórólfs segja um hanska. Fólk á það til að gleyma sér með hanskana og það er ákveðin kúnst að fara rétt úr þeim svo smit berist ekki af þeim og í viðkomandi. „Þannig að það getur gefið falskt öryggi,“ ítrekaði Þórólfur. „Ég held að þeir sem eru veikir fyrir ættu helst að reyna að fá einhvern til að fara fyrir sig út í búð.“
Alma Möller landlæknir sagði á fundinum að vissulega væri það nauðsynlegt fyrir heilbrigðisstarfsfólk að bera grímur er það sinnir veikum og að sjálfsögðu þegar það hlúir að sjúklingum með COVID-19. Það væru hins vegar sérstakar grímur.
Þá benti hún á að það gæti þurft að setja grímur á smitaða svo að þeir smiti ekki frá sér. „Svo er eitt sem grímurnar gera og það er að minna okkur á að vera ekki alltaf að bera hendurnar upp í vitin og andlitið.“
198 smit höfðu greinst hér á landi í gærkvöldi. Enn má rekja flest þeirra til útlanda. Rúmlega 2.000 manns eru í sóttkví.