330 smit af nýju kórónuveirunni eru nú staðfest á Íslandi en þau voru 250 í gær. 3.718 eru nú í sóttkví vegna veirunnar. 7.833 sýni hafa verið tekin samanlagt hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og Íslenskrar erfðagreiningar.
Þetta kemur fram á vefnum COVID.is þar sem daglega eru birtar uppfærðar tölur um útbreiðslu veirunnar.
Á vefnum kemur fram að 532 hafi nú lokið sóttkví og að þrír liggi á sjúkrahúsi vegna sjúkdómsins.
Frá og með deginum í dag er Íslendingum og öðrum með búsetu á Íslandi og koma til landsins skylt að fara í tveggja vikna sóttkví án tillits til hvaðan þeir eru að koma. Undanþegnir þessu er flugáhafnir og áhafnir flutningaskipa.
Áður hafði Íslendingum sem sneru heim frá svokölluðum hááhættusvæðum verið gert að fara í tveggja vikna sóttkví við heimkomu. Þessi svæði, þ.e. lönd með mikla smithættu, eru Íran, Suður-Kórea, Ítalía, Kína, Þýskaland, Spánn og Frakkland. Nú gilda sóttkvíartilmælin um heimkomu frá öllum löndum.
Sóttvarnalæknir ræður Íslendingum jafnframt frá ferðalögum og þá er Íslendingum sem eru á ferðalagi erlendis ráðlagt að íhuga hvort ástæða sé til að flýta heimför.