„Það sem við verðum að einbeita okkur að er að finna þá sem eru veikir, þá sem eru smitaðir og einangra þá, finna þá [sem smitaðir] hafa verið í samskiptum við og einangra þá.“
Þetta segir Mike Ryan, sérfræðingur hjá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni. Hann segir ekki nóg að stjórnvöld loki einfaldlega samfélögum sínum í baráttunni gegn kórónuveirunni. Til þurfi einnig að koma lýðheilsuvarnir til að koma í veg fyrir að veiran nái sér aftur á strik síðar meir. Hætta sé á að það gerist þegar samkomubönnum og öðrum takmörkunum verður aflétt.
Mörg lönd víða um heim hafa síðustu daga gripið til samkomubanna, útgöngubanna og margvíslegra annarra takmarkanna. Verslanir eru lokaðar, barir og veitingahús einnig og sömuleiðis skólar í mörgum löndum.
En Ryan segir það alls ekki nóg. Því verði samhliða að fylgja umfangsmikil skimun og smitrakning. Tók hann Kína, Singapúr og Suður-Kóreu sem dæmi. Þar voru sett á ferðabönn og fleira en á sama tíma var skimað í stórum stíl og allra leiða leitað til að hafa uppi á þeim sem mögulega voru smitaðir. Þetta er að mati Ryan leiðin sem Evrópuþjóðir ættu að fylgja nú þegar miðju heimsfaraldursins er nú þar að finna.
Í takti við aðgerðir á Íslandi
Þessar aðgerðir, sem Asíulöndin gripu til strax í upphafi árs, eru nokkuð sambærilegar þeim sem notaðar hafa verði hér á landi. Leiðarstef íslenskra heilbrigðisyfirvalda er að greina snemma, einangra og beita sóttkví. Þá hefur sérstakt smitrakningarteymi, sem lögreglumenn og heilbrigðisstarfsfólk koma að, unnið að því að rekja hvert einasta smit.
Íslensk erfðagreining hefur í nokkra daga skimað fyrir veirunni meðal almennings til að kanna hvort að samfélagssmit sé að eiga sér stað, þ.e. hvort að veiran hafi búið um sig í samfélaginu án þess að við vitum af því.
Í síðustu viku var svo sett á samkomubann á Íslandi sem er enn eitt tæki sem stjórnvöld geta beitt til að hefta útbreiðslu. Til stendur að herða enn frekar á því frá og með miðnætti á morgun, mánudag.
Faraldurinn er nú verulega að sækja í sig veðrið á Spáni og neyðarástand sem þar er í gildi hefur verið framlengt um tvær vikur til viðbótar. Á meðan það er í gildi mega Spánverjar ekki fara út af heimilum sínum nema að brýna nauðsyn beri til. Þar hafa nú 1.720 dáið og staðfest smit eru yfir 28 þúsund.
Í gær lést Lorenzo Sanz, fyrrverandi forseti knattspyrnufélagsins Real Madrid, úr COVID-19. Hann var 76 ára gamall. Madrid er miðja faraldursins á Spáni og þar hafa flest smit greinst og yfir 800 látist vegna veirunnar.
Staðan er nokkuð önnur í Tékklandi í augnablikinu. Þar segja opinberar tölur að 1.047 smit hafi greinst úr tæplega 15.600 sýnum og að sex sjúklingar hafi náð sér af COVID-19. Enginn er enn talinn hafa látist úr veirusýkingunni.
Að minnsta kosti átta erfiðar vikur fyrir höndum
Belgísk yfirvöld telja að þar í landi verði hámarki faraldursins senn náð. Enn séu þó erfiðar átta vikur framundan. Í landinu, sem er miðstöð ýmissa alþjóðastofnana, búa um tíu milljónir manna. Þar hefur staðfestum smitum og dauðsföllum af völdum veirunnar fjölgað hratt síðustu daga. Í dag hafa greinst 3.400 smit og 75 dauðsföll eru rakin til veirunnar. Um helgina óku lögreglubílar um götur borgarinnar og hvatti lögreglan fólk til að vera inni hjá sér og halda fjarlægð sín á milli.
Í Frakklandi hafa greinst um 15.000 smit og dauðsföll eru þegar orðin mörg eða 562.
Miklar takmarkanir hafa verið settar á mörg landamæri í Evrópu og víðar og ónauðsynlegum ferðalögum settar þröngar skorður.
Í Evrópu er ástandið langverst á Ítalíu og þar hefur herinn verið fenginn til að tryggja að fólk haldi útgöngubann. Á einum sólarhring, frá föstudegi til laugardags, létust 793 sem þýðir að aðeins á fjórum dögum dóu yfir 2.300 manns í landinu vegna veirunnar.