Verktaka- og þjónustufyrirtækið VHE ehf., sem var umfangsmesti framkvæmdaaðilinn í byggingum hundruð íbúða fyrir fasteignafélagið Upphaf, greiddi alls 58 milljónir króna til Péturs Hannessonar, framkvæmdastjóra Upphafs, frá 2015 og fram á mitt ár í fyrra. Greiðslurnar fóru beint til Péturs eða til félags í hans eigu.
Á sama tíma fengu VHE og undirverktakar þess ríflega sjö milljarða króna frá Upphafi fyrir verkefni sem samið var beint við verktakafyrirtækið um, í stað þess að fara í útboð og leita bestu kjara. Frá þessu var greint í Kveik á RÚV í kvöld.
Upphaf var að öllu leyti í eigu fagfjárfestasjóðs sem var í stýringu hjá GAMMA, og kallaðist GAMMA: Novus. Sá sjóður var með bókfært eigið fé upp á 4,8 milljarða króna um mitt ár 2018. Sjóðurinn réðst svo í skuldabréfaútboð til að fjármagna framkvæmdir á sínum vegum vorið 2019 og safnaði 2,7 milljörðum króna á himinháum vöxtum, eða um 16 prósent.
Málið var litið svo alvarlegum augum innan Kviku að skipt var um alla þá sem stýrt höfðu sjóðnum, Fjármálaeftirlitinu gert viðvart um stöðu Novus og Grant Thornton ráðið til að fara yfir málið. Á meðal þess sem ákveðið var að skoða var hvort að greiðslur hefðu runnið frá Upphafi til félaga sem tengjast fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins, Pétri Hannessyni.
Segir greiðslurnar hafa átt sér „eðlilegar skýringar“
Í Kveik í kvöld var greint frá því að í framkvæmdastjóratíð Péturs hjá Upphafi hafi verið stofnað til umfangsmikils viðskiptasambands við VHE, sem er afar skuldsett verktakafyrirtæki með litla reynslu af stórtækum fasteignaverkum og hafði átt við lausafjárskort að stríða. Samningarnir sem VHE fékk án útboðs hjá Upphafi voru þannig að fasteignafélagið bar alla áhættuna af þeim, en verktakinn enga.
Kveikur greindi frá því að fréttamenn hans hefði undir höndum gögn sem sýndu greiðslur upp á samtals 58 milljónir króna til Péturs og félags í hans eigu frá VHE á sama tíma og hann var að gera ofangreinda samninga, alls upp á ríflega sjö milljarða króna, við verktakafyrirtækið.
Í þætti kvöldsins var haft samband við Pétur og Unnar Stein Hjaltason, aðaleiganda og stjórnarformann VHE. Þar neituðu þeir báðir að tjá sig um málið en nokkrum dögum síðar sendi lögmaður VHE bréf til Kveiks. Þar gengst fyrirtækið við því að hafa greitt Pétri 58 milljónir króna fyrir ráðgjöf og sagði að þótt það mætti taka undir að það að greiðslurnar litu illa út ættu þær sér eðlilegar skýringar. Þær væru vegna annarra fasteignaverkefna en þeirra sem tengdust Upphafi og því hafi ekki verið neitt óeðlilegt við viðskiptasambandið milli aðilanna tveggja.
„Rosalegar fréttir“
Aðrir viðmælendur Kveiks sem áttu mikið undir Upphafi sögðu greiðslunnar hins vegar koma mikið á óvart. Á meðal þeirra var Ingvi Hrafn Óskarsson, sem var stjórnarformaður Upphafs og sjóðsstjóri Novus. Hann sagði í þætti kvöldsins að þetta væru „rosalegar fréttir“ og að hann væri „frekar sleginn yfir þessu“.
Þeir sem settu fé í Novus-sjóðinn voru íslenskir einstaklingar, tryggingafélög og lífeyrissjóðir. TM tapaði 300 milljónum króna á fjárfestingunni og VÍS og Sjóvá sitt hvorum 155 milljónunum. Þrír lífeyrissjóðir töpuðu samtals 800 milljónum króna. Á meðal þeirra sem töpuðu var Birta lífeyrissjóður. Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri hans, sagði í Kveik í kvöld að það þyrfti að rannsaka greiðslurnar til Péturs. Í þættinum kom fram að embætti héraðssaksóknara hefði fengið afrit af þeim gögnum sem voru þar til umfjöllunar. Forsvarsmenn Kviku banka lögðu auk þess fram kæru til embættisins í gær vegna málsins þar sem greiðslurnar verða rannsakaðar sem meint augðunarbrot.
Samkvæmt almennum hegningarlögum getur sá sem gefur, lofar eða býður manni sem stjórnar fyrirtæki í atvinnurekstri gjöf eða annan ávinning, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert í bága við starfsskyldur hans, verið látinn sæta fangelsi allt að fimm árum.
Kjarninn fjallaði ítarlega um málefni GAMMA og Novus-sjóðsins í fyrrahaust. Hægt er að lesa yfirlit yfir þá umfjöllun hér.
Kanna rétt á bótum
GAMMA sendi frá sér yfirlýsingu eftir þátt kvöldsins þar sem kemur fram að núverandi forsvarsmenn GAMMA hafi verið upplýstir um efnisatriði þáttarins skömmu áður en hann var sendur út. „Rannsókn málsins heyrir undir viðeigandi yfirvöld og hefur GAMMA tilkynnt embætti héraðssaksóknara um atvik málsins. GAMMA mun jafnframt, fyrir hönd eigenda fagfjárfestasjóðsins GAMMA: Novus og lánveitenda, sem eru fjöldi fjárfesta, kanna rétt til bóta úr höndum þeirra sem í hlut eiga.”
Yfirstjórnandi Upphafs, sem var til umfjöllunar í þættinum, hafi látið af störfum hjá Upphafi í ársbyrjun 2019. „Í kjölfar kaupa Kviku banka á öllu hlutafé GAMMA tók nýtt stjórnendateymi til starfa hjá GAMMA á seinni helming árs 2019. “