Fjórir sóttu um stöðuna: Ásmundur og Ragnheiður Bragadóttir, sem eru bæði dómarar við Landsrétt, Sandra Baldvinsdóttir, settur dómari Í Landsrétti, og Ástráður Haraldsson, héraðsdómari.
Ásmundur og Ragnheiður voru bæði á meðal þeirra fjögurra einstaklinga sem voru ekki metin á meðal 15 hæfustu í hæfnismati dómnefndar þegar dómarar voru upphaflega skipaðir í Landsrétt í aðdraganda stofnunar hans, en voru samt sem áður skipuð í embætti við réttinn. Það gerðist eftir að Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, ákvað að víkja frá hæfnismati dómnefndar og tilnefna fjóra einstaklinga dómara sem nefndin hafði ekki metið á meðal 15 hæfustu og þar af leiðandi að skipa ekki fjóra aðra sem nefndin hafði talið á meðal þeirra hæfustu. Alþingi samþykkti þetta í byrjun júní 2017.
Áskildi sér rétt til að höfða dómsmál
Ástráður var einn þeirra fjögurra sem urðu af dómarasæti vegna þessa en dómnefnd hafði metið hann á meðal 15 hæfustu. Kjarninn greindi frá því 24. janúar síðastliðinn að hann hefði tilkynnt dómsmálaráðherra með bréfi að hann áskildi sér rétt til að láta reyna á það fyrir dómstólum ef þegar skipaðir dómarar við Landsrétt verði skipaðir í lausa stöðu við réttinn.
Í bréfinu sagði að það væri að mati Ástráðs augljós hætta á því að ef umsókn skipaðs Landsréttardómara væri talin gild og myndi svo leiða til nýrrar skipunar umsækjandans í embætti Landsréttardómara gætu þeir sem svo kysu látið á það reyna hvort slík skipun teldist lögmæt.
Með slíkri skipan væri í raun verið að gera tilraun til að löghelga eftir á skipun dómara sem þegar hefði verið metin ólögmæt. „Ég tel talsverðar líkur á að niðurstaða dómstóla yrði sú að slík skipan stæðist ekki. Það væri, svo vægt sé til orða tekið, í ljósi forsögunnar, afar óheppilegt bæði fyrir dómskerfið og umsækjandann ef það yrði niðurstaðan. Slíkur framgangur væri auk þess til þess fallinn að draga á langinn ríkjandi réttaróvissu um framtíðarskipan Landsréttar og fæli í sér afar sérkennileg skilaboð inn í yfirstandandi málarekstur fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Ég tel raunar að Landsréttur megi illa við frekari slíkum skakkaföllum.“
Í umsögn dómnefndar nú kemur fram að dómsmálaráðuneytið hafi tekið sérstaklega til athugunar hvort lög stæðu í vegi fyrir því að umsóknir Ásmundar og Ragnheiðar, sem þegar hafa skipun í Landsrétt, yrðu teknar til meðferðar. Niðurstaða ráðuneytisins var sú að svo væri ekki. Því lagði dómnefndin mat á hæfi allra umsækjendanna. Kjarninn greindi frá því í byrjun febrúar að lögfræðingar innan dómsmálaráðuneytisins hefðu framkvæmt athugunina. Ekki var leitað álits utanaðkomandi sérfræðinga.
Ásmundur bar af í gæðum við samningu dóma
Ásmundur hefur ekki sinnt Landsdómarastörfum í rúmt eitt ár, eða frá því að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu féll. Störf hans sem Landsréttardómari eru hins vegar metin þegar tekin er saman reynsla af dómstörfum sem vigta inn í niðurstöðu dómnefndar um hæfi, enda hafði hann starfað við réttinn frá byrjun árs 2018.
Einn liður sem dómnefndin skoðaði sérstaklega var almenn starfshæfni og andlegt atgervi. Þar skiluðu umsagnaraðilar sem umsækjendur höfðu tilnefnt umsögn um þá. Í tilfelli Ásmundar veittu tveir aðilar umsögn: Hervör Þorvaldsdóttir, forseti Landsréttar, og Aðalsteinn E. Jónasson landsréttardómari.
Dómnefndin lagði líka sérstakt mat á færni umsækjenda við að semja dóma. Í dómum Hæstaréttar í desember 2017, þar sem skipun fjögurra dómara við Landsrétt í júní 2017 var dæmd ólögmæt, kom fram að það væri annmarki á umsögn dómnefndar þá að ekki var sérstaklega lagt mat á þá færni.
Niðurstaða þess mats var að dómsúrlausnir Ásmundar „beri af í gæðum, hvort sem horft er til skýrleika og málfars, reifunar málsatvika, ágreiningsefna og málsástæðna, og loks rökstuðnings fyrir niðurstöðu á grundvelli sönnunar- og lagaatriða“. Næst honum kom Ragnheiður, svo Sandra og loks Ástráður.
Samandregið var það mat nefndarinnar, eftir að hafa lagt heildrænt mat á menntun og reynslu umsækjenda, að Ásmundur stæði öðrum umsækjendum framar. Hann væri því hæfastur umsækjenda til að gegna embætti dómara við Landsrétt.