Viðskiptaráð Íslands segir að það séu mikil vonbrigði að ekkert hafi heyrst frá stjórnvöldum um stórfellda lækkun starfshlutfalls og tímabundnar kjaraskerðingar opinberra starfsmanna vegna efnahagslegra afleiðinga veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Þetta kemur fram í umsögn þess um fjáraukalög.
Þar segir að Ísland sé varla byrjað að sjá hverjar afleiðingarnar verða af COVID-19 en stóra myndin sé sú að landsframleiðsla á mann muni falla verulega. Hvað atvinnulífið varði heyri til undantekninga að atvinnugreinar verði ekki fyrir fjárhagslegu höggi sem aftur leiðir til uppsagna og kjararýrnunar.
Þótt höggið sé vonandi tímabundið telur Viðskiptaráð að það væri eðlilegt að allir taki þátt í að verða fyrir því. „Þar geta opinberir starfsmenn, fyrir utan þá sem eru í fremstu víglínu baráttunnar gegn COVID-19, ekki verið undanskildir. Því eru mikil vonbrigði að ekkert hafi enn heyrst um skert starfshlutföll, tímabundnar kjaraskerðingar eða annað slíkt á sama tíma og stórfelld lækkun starfshlutfalls og uppsagnir eru að hefjast á almennum vinnumarkaði. Hið sama ætti að gilda á opinberum vinnumarkaði. Það er sanngjarnt en eykur líka svigrúm ríkisins til að bregðast við aðstæðunum í heilbrigðiskerfinu og til þess að forgangsraða fjármunum í aðgerðir til að sporna gegn neikvæðum efnahagslegum áhrifum t.d. með því að verja atvinnulífið, þar sem verðmætasköpunin á sér stað.“
Undir umsögnina skrifar Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs.
Vilja hagræðingarkröfu á ríkisstofnanir
Samtök atvinnulífsins eru á svipuðum slóðum í sinni umsögn, sem er undirrituð af Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra þeirra.
Þar er gerð athugasemd við að engin hagræðingarkrafa sé sett á ríkisstofnanir í fjáraukalagafrumvarpinu. „Við blasir að starfsemi margra stofnana mun dragast verulega saman eða jafnvel liggja niðri í einhverjar vikur eða mánuði vegna faraldursins. Eðlilegt væri að samið yrði við starfsmenn um að fara í hlutastörf í samræmi við lög um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðarsjóð launa (minnkað starfshlutfall) sem samþykkt voru á Alþingi sl. föstudag.“
Vilja að ríkissjóður gefi peninga til fyrirtækja í stað þess að lána
Kjarninn greindi frá því í gær að Viðskiptaráð vill einnig að íslenska ríkið horfi til aðgerða annarra ríkja til að bregðast við yfirstandandi efnahagssamdrætti og að það geri frekar meira en minna. Á meðal þeirra aðgerða sem Viðskiptaráð bendir á í þessu samhengi eru bein fjárframlög til fyrirtækja úr ríkissjóði sem yrðu ekki endurgreiðanleg.
Í umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp ríkisstjórnarinnar sem er ætlað að lögfesta aðgerðarpakka hennar í efnahagsmálum segir að sum ríki í kringum okkur séu að „átta sig á því að það sé ekki endilega skynsamlegasta leiðin til að styðja við fyrirtæki að láta þau skuldsetja sig meira heldur þurfi beinni og markvissari stuðning“.
Viðskiptaráð ítrekar þessa skoðun sína í umsögninni um fjáraukalagafrumvarpið. Þar segir að stjórnvöld þurfi að hafa vakandi auga fyrir útfærslu lánaúrræðisins, samspil við önnur úrræði og mögulegrar útvíkkunar þess ef svartari sviðsmyndir rætast. „Takmörk eru fyrir hversu miklar skuldir fyrirtæki geti tekið á sig án þess að það bitni á getu þeirra til að spyrna við fótum. Því gæti líka verið nærtækara að leggja áherslu á bein ríkisútgjöld eða niðurfellingu skatta til að hjálpa fyrirtækjum og samfélaginu yfir erfiðasta hjallann, sem aftur kallar á meiri skuldsetningu ríkisins til skemmri tíma.“