Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segist harma að Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, hafi sagt af sér sem fyrsti varaforseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ) í dag. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hún birti á Facebook-síðu sinni í kvöld.
„Vilhjálmur hefur verið óþreytandi baráttumaður fyrir bættum hag verkafólks og heimila og öflugur bandamaður minn og Eflingar á síðustu árum. Mikill missir er að honum úr sæti varaforseta Alþýðusambandsins,“ skrifar hún.
Samtök atvinnulífsins (SA) og ASÍ höfðu átt í óformlegum viðræðum um nokkurt skeið um málaleitan samtakanna um að leita leiða til að draga tímabundið úr launakostnaði fyrirtæki. Á mánudag sendi SA formlegt erindi þess efnis til samninganefndar ASÍ, sem var í dag hafnað með því afdráttarlausa svari að verkalýðshreyfingin léði ekki máls á tímabundinni lækkun launakostnaðar. Vilhjálmur var ósammála því að hafna leið SA og sagði af sér embætti í kjölfarið.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði sig úr miðstjórn ASÍ strax á mánudaginn og sagði hann í samtali við Kjarnann í dag að hann teldi að kröftum sínum væri að svo stöddu ekki vel varið í að taka þátt í starfi innan sambandsins.
Hafnaði að frekari byrgðum yrði velt yfir á vinnandi fólk
Sólveig Anna segir í yfirlýsingu sinni að vegna vísunar í umræður á vettvangi samninganefndar ASÍ vilji hún taka fram að hún hafi fyrir hönd Eflingar hafnað því með öllu að frekari byrðum vegna Covid-19 faraldursins, umfram það sem þegar er, verði velt yfir á vinnandi fólk.
„Afstaða mín er sú að ef frekari stuðningsaðgerða við vinnumarkaðinn sé þörf þá eigi ríkið að standa við fyrirheit sín um viðbótaraðgerðir, til dæmis með frekari rýmkun hlutabótaleiðinnar eða tímabundinni lækkun tryggingagjalds. Mikið svigrúm er til staðar í fjármálum hins opinbera og núverandi aðgerðapakki enn talsvert minni en það sem sést hefur hjá nágrannalöndum. Meðan svo er get ég ekki fallist á að verkalýðshreyfingin gefi afslátt af kjörum sinna félagsmanna, allra síst láglaunafólks sem nú þegar berst í bökkum og hefur gert lengi. Ég hafna því að verkalýðshreyfingin taki frumkvæði að tillögum um slíkt. Þessu hef ég komið skýrt á framfæri á vettvangi Alþýðusambandsins,“ skrifar hún.
Þá bendir hún á að engum dyljist að miklir gallar séu á mörgum þáttum íslenska lífeyriskerfisins, „en það getur ekki þýtt að láglaunafólk sem þiggur smánarlega lágar lífeyrisgreiðslur við starfslok eigi að nota þær greiðslur til að kaupa atvinnurekendur frá kostnaði við að standa við kjarabætur sem unnust með harðri baráttu verkafólks.“
Sólveig Anna hvetur í yfirlýsingunni til þess að verkalýðshreyfingin standi saman og vinni af yfirvegun við úrlausn þeirra miklu verkefna sem við okkur blasa vegna Covid-19 veirufaraldursins.
Yfirlýsing vegna afsagnar 1. varaforseta ASÍ Ég harma að Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness hafi...
Posted by Sólveig Anna Jónsdóttir on Wednesday, April 1, 2020