Tveir einstaklingar, báðir með tengsl við hjúkrunarheimilið Berg í Bolungarvík, greindust með COVID-19 í gær. Smitum heldur áfram að fjölga á norðanverðum Vestfjörðum.
Alls eru nú 74 tilfelli sjúkdómsins skráð í umdæminu öllu, segir í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum. Hafa ber þó í huga að umrædd talning byggir á lögheimilisskráningu viðkomandi, sem kann að dvelja utan umdæmisins. Þannig er því til að mynda háttað með nýskráð tilfelli í Vesturbyggð og hið sama á við um skráða tilvikið í Hólmavík/Strandir.
Ljóst er að smitin eru í vexti, segir í tilkynningu lögreglunnar. Eins og staðan er í dag er sjúkdómurinn bundinn við norðanverða Vestfirði. Engin virk smit eru í Reykhólahreppi, Hólmavík, Árneshreppi og Kaldrananeshreppi og hið sama á við um Vesturbyggð og Tálknafjörð.
„Enn og aftur er brýnt fyrir öllum sem finna fyrir flensueinkennum að halda sig heima og hafa samband við sína heilsugæslustöð, sjá heimasíður þeirra, www.hvest.is og www.hve.is Læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður mun veita ráð og ákveða sýnatöku.“
Hertar reglur áfram í gildi
Aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum hefur ákveðið í samráði við sóttvarnalækni að halda óbreyttu fyrirkomulagi sóttvarna á norðanverðum Vestfjörðum til að minnsta kosti 26. apríl.
Í því felst að:
Leik- og grunnskólar á norðanverðum Vestfjörðum verði áfram lokaðir. Þó skulu börn á forgangslistum fá vistun á leikskólum og 1. og 2. bekkjum grunnskóla.
Samkomubann verði miðað við fimm manns (þetta á þó ekki við um fjölskyldur sem búa á sama heimili).
Fjöldi viðskiptavina í stærri verslunum (>150 fermetrar) sé að hámarki 30 á hverjum tíma.
„Það er mat aðgerðastjórnar að ofangreindar aðgerðir séu að skila árangri,“ segir í tilkynningu. „Enn eru þó að greinast ný smit og allmargir einstaklingar í samfélaginu eru veikir. Það er því afar brýnt að fólk haldi sig heima, haldi samskiptafjarlægð, takmarki ferðir sínar og fylgi leiðbeiningum þessum.“
Aðgerðastjórn fundar og metur stöðuna á degi hverjum.