Í Færeyjum hafa 184 greinst með kórónuveiruna en ekkert nýtt tilfelli hefur greinst frá því 6. apríl eða í heila viku.
Enginn liggur nú á sjúkrahúsi í Færeyjum vegna COVID-19 og 163 Færeyingar hafa náð bata af sjúkdómnum og enginn hefur látist. Aðeins 21 virkt smit er því að finna á eyjunum.
Færeyingar hafa verið mjög framarlega í sýnatökum og hafa tekið yfir 5.600 sýni eða úr um 10 prósentum þjóðarinnar.
Árangurinn er að miklu leyti rakinn til eins manns. Dýralæknisins Debes Christiansen nánar til tekið. Hann hóf að rannsaka sýni úr mönnum í stað laxa á rannsóknarstofu sinni og lagði þannig mikið af mörkum til baráttunnar gegn kórónuveirufaraldrinum.
Stjórnvöld hafa ákveðið að þann 20. apríl verði leikskólar opnaðir á ný og nemendur fyrstu bekkja grunnskóla munu einnig snúa aftur í skólann.
Dýralæknirinn Christiansen, sem fer fyrir rannsóknarstofnun dýrasjúkdóma í Færeyjum, er með rannsóknarstofu í höfuðstaðnum Þórshöfn. Strax í janúar varaði hann heimastjórn Færeyja við því að hin nýja kórónuveira sem þá var farin að leika Kínverja grátt gæti orðið að heimsfaraldri. Færeyjar yrðu að vera undir það búnar.
Á rannsóknarstofunni er aðallega unnið að rannsóknum á veirusýkingum í laxi. Christiansen keypti nauðsynleg tæki og tól til að hægt yrði að rannsaka þar sýni úr mönnum.
Færeyingum hefur tekist að rekja hvert einasta smit sem þar hefur komið upp og ýmist sett fólk í einangrun eða sóttkví, líkt og gert er hér á landi.
Christiansen segir í viðtali við breska blaðið Guardian að hægt væri að rannsaka þúsund sýni á dag á rannsóknarstofunni í Þórshöfn ef þess gerðist þörf. Hann segir að það mörg sýni hafi verið tekin í Færeyjum að litlar líkur séu á því að samfélagssmit væri útbreitt.