„Við sem samfélag ákváðum í byrjun að standa vörð um þau gildi samfélagsins að hlúa að þeim sem eru veikir fyrir og fara saman í gegnum það sem framundan væri,“ sagði Alma Möller landlæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Í undirbúningi heilbrigðiskerfisins við að takast á við faraldurinn hafi þrennt skipt máli. Í fyrsta lagi að tryggja öryggi starfsmanna, að starfsfólk hefði þá þekkingu og leiðbeiningar sem þurfti og sérstaklega að fólk hefði greiðan aðgang að viðeigandi hlífðarbúnaði. Það tókst hér á landi en því miður ekki í ýmsum öðrum löndum heims
Í öðru lagi var ákveðið að hlúa að þeim sem myndu veikjast af COVID-19 og að árangur meðferðarinnar yrði eins góður og mögulegt væri. „Við erum ekki komin fyrir vind og ekki búin að gera upp árangurinn,“ sagði Alma en að ljóst væri að tekist hefði að sveigja kúrfuna og forða því að hér skylli á faraldur eins og gerðist til dæmis á Norður-Ítalíu.
Í þriðja lagi einsettu yfirvöld sér að tryggja aðra nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og að breyta þar forgangsröðun. Þegar ákveðið var 22. mars að fresta valkvæðum skurðaðgerðum og ífarandi rannsóknum eins og speglunum var ekki ljóst hvaða stefnu faraldurinn myndi taka. Ákveðið var að fresta öllu því sem ekki gat beðið í átta vikur.
„En nú virðist sem að við séum komin á lygnari sjó varðandi faraldurinn,“ sagði Alma en benti á að faraldurinn næði ekki toppi í innlögnum á sjúkrahús og gjörgæsludeildir fyrr en um næstu helgi. „Ef svo heldur sem horfir þá mun ég í byrjun næstu viku mælast til þess að leyft verði að hefja aftur þessar valkvæðu aðgerðir,“ sagði Alma. Að rúmri viku liðinni er því mögulegt að þær hefjist á ný.
Alma sagði einnig á fundinum að í vinnslu væru tilslakanir á heimsóknartakmörkunum á hjúkrunarheimili. Upp væru komnar margar góðar hugmyndir og niðurstaða mun liggja fyrir og verða tilkynnt í næstu viku.