Fjöldamörk samkomubanns hækka úr 20 í 50 manns 4. maí, unnt verður að opna framhalds- og háskóla og ýmsir þjónustuveitendur geta á ný tekið á móti viðskiptavinum. Skemmtistaðir, krár og spilasalir verða hins vegar áfram lokuð til 1. júní. Þá skulu aðrir veitingastaðir þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar ekki hafa opið lengur en til kl. 23.00 alla daga vikunnar.
Þetta er meðal þess sem leiðir af nýrri auglýsingu heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Rýmkun á reglum um takmarkanir á skólahaldi og samkomum er í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Auglýsingin tekur gildi 4. Maí og gildir til miðnættis þann 1. júní.
Frá 4. maí falla alveg niður takmarkanir á fjölda nemenda í leik- og grunnskólum og einnig fjöldatakmarkanir við íþróttaiðkun og æskulýðsstarf barna á leik- og grunnskólaaldri.
Í auglýsingunni kemur einnig fram að sundlaugar og húsnæði líkamsræktarstöðva skulu áfram vera lokuð almenningi. Sundlaugar mega þó hafa opið fyrir skólasund og skipulagt íþróttastarf.
Æfingar og keppnir skipulagðs íþróttastarfs eru heimilar án áhorfenda með ákveðnum takmörkunum.
Í skipulögðu íþróttastarfi skulu snertingar vera óheimilar og halda skal tveggja metra bili á milli einstaklinga. Notkun á sameiginlegum búnaði, einkum þeim sem snertur er með höndum, skal haldið í lágmarki og ber að sótthreinsa hann á milli notkunar.
Óheimilt er að nota búningsklefa, sturtuklefa og aðra inniaðstöðu en íþróttasal og salernisaðstöðu.
Við skipulagt íþróttastarf innandyra mega ekki fleiri en fjórir einstaklingar æfa eða leika saman í einu rými, sem skal vera a.m.k. 800 m².
Við skipulagt íþróttastarf utandyra mega ekki fleiri en sjö einstaklingar æfa eða leika saman í hópi. Séu fleiri hópar við æfingar á sama svæði skal miða við að hver hópur hafi um 2.000 m² til umráða.
Sem fyrr segir gilda þessar takmarkanir ekki meðal barna á leik- og grunnskólaaldri.
Hér er auglýsingin í heild.