Í öðrum hluta aðgerðaáætlunar stjórnvalda sem kynnt var í Safnahúsinu í dag er sértök áhersla meðal annars lögð á námsmenn. 2,2 milljörðum króna verður varið til að skapa 3.000 tímabundin störf í sumar fyrir námsmenn 18 ára og eldri og 300 milljónum króna til að efla nýsköpun meðal ungra frumkvöðla gegnum Nýsköpunarsjóð námsmanna. Auk þess verður 800 milljónum króna veitt til að bjóða sumarönn í framhalds- og háskólum sem nýtist bæði nemendum og fólki á atvinnuleysis- eða hlutabótum.
Hér að neðan má finna svör við nokkrum spurningum varðandi aðgerðir fyrir námsmenn. Svörin eru fengin af heimasíðu forsætisráðuneytisins
Ég hef áhuga á háskólanámi í haust, kemst ég að?
Háskólum verður gert kleift að mæta mögulegri nemendafjölgun í kjölfar efnahagsáhrifa af heimsfaraldri kórónuveiru. Áhersla verður lögð á námsleiðir sem draga úr færnibili á vinnumarkaði og mæta þörfum atvinnulífsins fyrir menntað starfsfólk í undirmönnuðum starfsgreinum, t.d. fagháskólanám í heilbrigðis- og tæknigreinum, kennaranám og hagnýtt nám fyrir nemendur með íslensku sem annað mál.
Fyrir hverja eru sérstök námsúrræði?
Nám á sumarönn er sniðið fyrir einstaklinga á atvinnuleysisbótum eða hlutabótum sem geta aukið færni sína með viðbótarnámi og endurmenntun. Jafnframt er námið ætlað nemendum sem stunda hefðbundið háskóla- og framhaldsskólanám eða eru að hefja slíkt nám.
Hvenær verða sérstök námsúrræði í boði?
Sumarnám verður í boði á háskóla- og framhaldsskólastigi. Háskólum verður jafnframt gert kleift að mæta mögulegri nemendafjölgun í haust með áherslu á námsleiðir sem draga úr færnibili á vinnumarkaði.
Hvaða skólar/fræðsluaðilar taka þátt í sérstökum námsúrræðum?
Á háskóla- og framhaldsskólastigi verður í boði sumarnám bæði hjá opinberum skólum og einkaaðilum. Námið verður auglýst m.a. á heimasíðum viðkomandi skóla.
Fyrir hverja eru sérstök námsúrræði?
Nám á sumarönn er sniðið fyrir einstaklinga á atvinnuleysisbótum eða hlutabótum sem geta aukið færni sína með viðbótarnámi og endurmenntun. Jafnframt er námið ætlað nemendum sem stunda hefðbundið háskóla- og framhaldsskólanám eða eru að hefja slíkt nám.
Hvers konar nám verður í boði í sumar?
Á framhaldsskólastigi er um að ræða annars vegar kynningaráfanga svo sem um nýsköpun, tækni og listir og hins vegar áfanga sem eru hluti af námsbrautum skólanna. Jafnframt verður boðið upp á stuttar starfsnámsleiðir.
Á háskólastigi er um að ræða stuttar hagnýtar námsleiðir á grunn- og meistarastigi, undirbúningsnám fyrir umsækjendur fyrir háskólanám og endurmenntun fyrir fagaðila.
Hvernig verður framkvæmd námsins háttað?
Nám verður ýmist í staðnámi, dreifnámi/blönduðu námi eða fjarnámi:
- Námsáfangar í staðnámi geta verið t.d. nokkrir tímar, hálfur/heill dagur í nokkrar vikur.
- Námsáfangar í dreifnámi eða blönduðu námi þar sem námið er fyrst og fremst í fjarnámi en nemendur hittast einstaka sinnum með kennara/leiðbeinanda.
- Námsáfangar í fjarnámi.
Ég er að ljúka framhaldsskóla í vor og hef ekki fengið sumarstarf. Get ég skráð mig í sumarnám?
Boðið verður upp á undirbúningsnám fyrir nemendur sem munu hefja háskólanám í haust. Nánari upplýsingar verður að finna á heimasíðum háskólanna.
Ég er atvinnulaus, hef ekki lokið framhaldsskóla og vil efla færni mína á vinnumarkaði; hvaða nám stendur til boða?
Nám á sumarönn er m.a. sniðið fyrir einstaklinga á atvinnuleysisbótum eða hlutabótum sem geta aukið færni sína með viðbótarnámi og endurmenntun.
Ég er í háskólanámi og hef ekki fengið sumarvinnu; get ég flýtt fyrir mér í námi með sumarnámi?
Kannski. Það er mikilvægt að kanna á heimasíðum háskólanna hvort viðkomandi nám er metið til ECTS eininga. Margt nám að sumri er ekki einingabært og nýtist því ekki til styttingar náms. Nám sem ekki er einingabært getur samt sem áður nýst til símenntunar.
Ég er atvinnulaus/í skertu starfshlutfalli, á atvinnuleysisbótum/hlutabótum; hvaða rétt á ég til náms?
Samkvæmt núgildandi lögum er þeim sem eru á atvinnuleysisbótum heimilt að stunda nám á háskólastigi að hámarki 10 ECTS einingum án þess að komi til skerðingar atvinnuleysisbóta. Hlutabótaleið er ætlað að viðhalda ráðningasambandi og er tímabundið úrræði til 1. júní og á því ekki við um nám á atvinnuleysisbótum.
Ég er í fullri vinnu/hlutastarfi; get ég nýtt mér sérstök námsúrræði?
Ýmsir námsáfangar verða í boði í dreifnámi/blönduðu námi eða í fjarnámi og hægt að taka með vinnu.
Skerðist réttur minn til atvinnuleysisbóta/hlutabóta ef ég skrái mig í nám?
Allt nám umfram 10 ECTS skerðir atvinnuleysisbætur í hlutfalli við fjölda eininga, sem dæmi þá skerðir nám sem er 15 ECTS einingar atvinnuleysisbætur um 50%. Atvinnuleysisbætur falla niður við 20 ECTS eininga nám.
Er námið lánshæft hjá LÍN?
Á háskólastigi er einungis sumarnám sem metið er til ECTS eininga lánshæft hjá LÍN. Nám á sumarönn tilheyrir undangengnu skólaári. Námsmaður þarf að ljúka að lágmarki 15 ECTS-einingum á sumarönn til að eiga rétt á sumarláni. Aldrei er veitt meira lán en sem nemur 20 ECTS-einingum á sumarönn og 80 ECTS-einingum samtals á hverju námsári. Sækja þarf sérstaklega um lán á sumarönn. Umsóknarfrestur til að sækja um lán hjá Lánasjóði íslenska námsmanna á sumarönn 2020 er til og með 15. júlí 2020.
Framhaldsskólanemar sem stefna á stúdentspróf eða sambærilegt próf geta ekki fengið námslán. Hins vegar eru námslán veitt fyrir löggilt iðnnám og annað viðurkennt starfsnám á framhaldsskólastigi sem skipulagt er af viðeigandi starfsgreinaráði. Námsmenn geta líka átt rétt á námslánum þegar þeir eru að vinna á samningi ef umsamin laun eru lægri en grunnframfærsla námsmannsins. Þegar upphæð námslánanna er reiknuð er farið með nemalaunin eins og aðrar tekjur skv. reglum sjóðsins og geta skert lánin.
Ég er námsmaður og fæ ekki vinnu yfir sumarið, hvað geri ég?
Vegna aðstæðna á vinnumarkaði í kjölfar faraldurs COVID-19 er ljóst að ekki verða jafnmörg sumarstörf í boði fyrir þá námsmenn sem nýta sumarið til starfa. Á grundvelli fjármagns frá ríki munu ríki og sveitarfélög skapa allt að 3.500 störf fyrir námsmenn yfir sumartímann til þess að hindra það að námsmenn verði tekjulausir og geti haldið áfram námi á komandi hausti.
Svör við fleiri spurningum má finna hér.