Það er „algjörlega vonlaust“ að segja til um það á þessari stundu hvort óhætt sé að bóka utanlandsferð í haust. „Sjálfur ætla ég ekki að skipuleggja neinar utanlandsferðir á þessu ári að minnsta kosti,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag .
Á fundinum var Þórólfur spurður að því hvenær Íslendingar gætu farið að huga aftur að ferðalögum erlendis. Hann sagði margt spila inn í það, ekki aðeins aðgerðir hér á landi og útbreiðsla veirunnar hér heldur hvað er að gerast í öðrum löndum að þessu leyti. Þannig væri það ekki undir okkur Íslendingum einum komið.
Hugsa þyrfti út í það hvort að fólk myndi eiga á hættu að lenda í sóttkví á áfangastað sínum erlendis og jafnvel útgöngubanni. „Það eru svo margir óvissuþættir í þessu að það er algjörlega vonlaust að segja eitthvað um það.“
Ferðatakmarkanir á landamærum Schengen-svæðisins verða í gildi til að minnsta kosti 15. maí. Á sama tíma eru í gildi sóttvarnarráðstafanir hér sem gera það að verkum að allir þeir sem koma til landsins, hvort sem þeir eru búsettir hér á landi eða ekki, þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví.
Framhald þessara aðgerða verður endurskoðað á næstunni.