Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir ótrúlega samstöðu og þrautseigju hafa einkennt starfsmenn og nemendur síðustu vikurnar. Byggingar skólans verða opnaðar á ný á mánudag en þeim var lokað vegna samkomubanns þann 16. mars. „Að sjálfsögðu munum við hlýta öllum tilmælum,“ sagði Jón Atli á upplýsingafundi almannavarna í dag. „Við erum öll almannavarnir og verðum það áfram þar til yfir lýkur.“
Á mánudag, 4. maí, verða fyrstu skrefin í afléttingu samkomubanns tekin. Þá mun leik- og grunnskólastarf komast í eðlilegt horf og framhaldsskólar og háskólar sömuleiðis geta opnað byggingar sínar fyrir nemendum með þeim fjöldatakmörkunum og öðru sem áfram verður í gildi.
Byggingar háskóla Íslands eru þrjátíu talsins. „Þetta er stórt samfélag,“ sagði Jón Atli. Ráðstafanir verða gerðar til að hægt verði að virða tveggja metra regluna og fjöldatakmarkanir sem miðast frá og með mánudeginum við fimmtíu manns. Próftímabil stendur nú yfir og sérstök lesrými verða skilgreind í ákveðnum byggingum og í skólastofum ef þörf reyndist á.
„Þá er spurningin, hver er lærdómurinn og liggja tækifæri í þessum aðstæðum? Háskóli Íslands hefur eins og allar kennslustofnanir landsins þurft að bregðast hratt við og endurskipuleggja alla starfsemina nánast á einni nóttu,“ sagði Jón Atli.
Öll kennsla hafi verið gerð rafræn og sömu sögu er að segja um próf og fundi. Það hefur gengið mjög vel.
En háskóli er samfélag. Og þó að fjarnám hafi gefist vel séu samskipti augliti til auglitis ennþá mikilvæg. „Það er nauðsynlegt að þunginn byggi áfram á mannlegum samskiptum, rökræðum og gagnkvæmri virðingu innan bygginga háskólans.“
Nú er unnið að þróun og skipulagi sérstaks sumarnáms. Boðið verður upp á undirbúningsnámskeið fyrir einstakar greinar eða fyrir háskólanám almennt. „Við erum að skoða alls konar möguleika,“ sagði Jón Atli. Hvað námsframboð varðar segir Jón það líta vel út.