Eftir helgi munu um 800 nemendur Tækniskólans mæta í skólann á ný til að ljúka verklegum þáttum í námi sínu. Þetta verður þó gert í skömmtum og á tveggja vikna tímabili. Alls eru um 2.600 nemendur í margvíslegu námi í Tækniskólanum og reynt verður að ljúka önninni í fjarnámi eins og hægt er. „En svo eru ákveðnir þættir námsins sem ekki verða gerðir við stofuborðið,“ sagði Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans á upplýsingafundi almannavarna í dag. Við stofuborðið skorti „yfirleitt rennibekki, málmsuðubása, gufupressur og vélsagir“.
Á mánudag, 4. maí, verða fyrstu skrefin í afléttingu samkomubanns tekin. Þá mun leik- og grunnskólastarf komast í eðlilegt horf og framhaldsskólar og háskólar sömuleiðis geta opnað byggingar sínar fyrir nemendum með þeim fjöldatakmörkunum og öðru sem áfram verður í gildi.
Í Tækniskólanum hefur verið útbúið „sautján síðna excel-skjal af skipulagi og 800 stundaskrár“ til að öllum tilmælum sóttvarnalæknis verði hægt að framfylgja. „Við munum að sjálfsögðu fara eftir stífustu reglum um tveggja metra fjarlægð og svo framvegis.“
Hildur sagði að kennarar og nemendur hefðu almennt verið mjög útsjónarsamir og lausnamiðaðir við að finna leiðir til að halda kennslu og námi áfram þrátt fyrir gjörbreyttar aðstæður.
„Stundum tölum við um COVID-byltinguna í kennsluháttum,“ sagði Hildur. „Við tókum stórt stökk fram á við á svipstundu.“ Allir hafi lært gríðarlega margt á stuttum tíma. Tæknin var oft fyrir hendi en ekki nýtt en nú varð að nota hana. „Fjarnámið hefur gengið vonum framar en ekki vandkvæðalaust.“ Eitt það sem runnið hefur rækilega upp fyrir mörgum er hvað nærveran skiptir miklu máli. Þannig séu margir fullir tilhlökkunar að mæta aftur í skólann í haust.
„Ég held að við verðum með öflugri framhaldsskóla vegna þess að við komum með alls konar hluti út úr [ástandinu] sem við getum tekið inn í áframhaldandi nám.“
Næstu daga og vikur munu nemendur á öllum skólastigum leggja sig fram við að klára önnina. Hildur hvatti alla foreldra og aðra forráðamenn til að hvetja nemendur til dáða og styðja eins og þeim frekast er unnt. Lokaspretturinn er framundan. Allir ættu að leggja mikið á sig við að styðja nemendur til að ljúka önninni en stuðningur fjölskyldna og samfélagsins skiptir máli.
Hildur sagði miklu máli skipta að nemendur haldist í námi og að brotthvarf verði sem minnst. Ýmislegt hafi verið gert til að reyna að tryggja það. Hún sagðist ekki vita hversu margir hafi dottið út úr námi í Tækniskólanum síðustu vikur og vonar að fjarkennslan hafi ekki bitnað á gæðum kennslunnar.