Fyrstu tilfelli COVID-19 hafa verið staðfest í troðfullum flóttamannabúðum í Suður-Súdan. Sameinuðu þjóðirnar óttast að allt geti farið á versta veg í þessu yngsta ríki heims sem er síst allra í stakk búið til að takast á við faraldurinn.
Tvö fyrstu smitin greindust í búðunum, sem eru skammt frá höfuðborginni Juba, hjá fólki á þrítugsaldri. Líkt og víðast hvar í Afríku hafa fá sýni verið tekin en 174 staðfest smit hafa verið greind. Rannsóknarstofur í landinu geta aðeins greint um 500 sýni á viku.
Tæplega 200 þúsund manns njóta verndar Sameinuðu þjóðanna í búðum vítt og breytt um Suður-Súdan. Ríkið lýsti yfir sjálfstæði frá Súdan árið 2011 og innan tveggja ára hafði þar brotist út blóðug borgarastyrjöld, ein sú óhugnanlegasta sem sögur fara af. Ítrekað hefur verið reynt að semja um frið og leggja niður vopn og undir það nýjasta var skrifað í fyrra. Djúp efnahagskreppa hefur fylgt stríðinu og hungursneyð ríkir víða. Grunninnviðir eru í molum og við þessar aðstæður er ómögulegt að sinna sjúkum af völdum faraldurs COVID-19.
Mannúðarsamtök og stofnanir hafa lengi óttast hvað muni gerast ef kórónuveiran fer að breiðast hratt út meðal fátækustu þjóða heims og þá sérstaklega í flóttamannabúðum þar sem aðstæður eru oft svakalegar. Ein áskorunin fellst í því að koma hlífðarfatnaði, lyfjabirgðum og heilbrigðisstarfsfólki til þessara viðkvæmustu svæða heimsins.
Sýnatökur hafa ekki farið fram í miklum mæli í flóttamannabúðum. Í flestum þeirra hafa engar slíkar farið fram að því er fram kemur í frétt bandarísku AP-fréttastofunnar.
Hjálparstarfsmenn í Suður-Súdan segja fáar leiðir færar til að sinna sjúkum ef faraldurinn nær þar fótfestu. Heilbrigðiskerfið byggir nær eingöngu á utanaðkomandi aðstoð ýmissa frjálsra félagasamtaka. Aðeins er hægt að einangra sjúka á einum spítala. Þar voru rúmin 24 en hefur nú verið fjölgað í áttatíu. Aðeins átján af þeim sem eru með staðfest smit hafa þó farið þangað í einangrun.
Í síðustu viku ákváðu stjórnvöld í Suður-Súdan að slaka á aðgerðum sínum til að hefta útbreiðsluna. Barir, veitingahús og markaðir hafa síðan þá verið opnaðir að nýju. Samtök lækna í landinu telja þetta verulegt áhyggjuefni þar sem smitum fari fjölgandi.
Það veldur ekki síst áhyggjum að þeir sem greinst hafa með veiruna neita að aðstoða yfirvöld við smitrakningu. Læknirinn Joseph Wamala, forstöðumaður Alþjóðlegu heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, í Suður-Súdan, segir að með þessu stefni fólk sinni nánustu fjölskyldu í hættu.