Skyndileg fjölgun nýrra tilfella af COVID-19 í Suður-Kóreu hefur orðið til þess að stjórnvöld hafa hert takmarkanir að nýju í höfuðborginni Seúl. Fjöldi nýrra smita er nú meiri en hann hefur verið í tæplega tvo mánuði. Óttast er að önnur bylgja faraldursins sé að skella á suðurkóresku þjóðinni.
Stjórnvöld í Suður-Kóreu hafa frá upphafi faraldursins hlotið lof fyrir viðbrögð sín. Fyrsta tilfellið greindist 20. janúar og þegar mest lét í mars voru að greinast um 500 smit á dag. Í landinu býr 51 milljón manna og þar hafa frá upphafi greinst 11.344 smit af kórónuveirunni. Tæplega 270 hafa látist vegna COVID-19.
Í gær greindust hins vegar 79 ný smit, þar af 67 í höfuðborginni þar sem um helmingur þjóðarinnar býr.
Það sem veldur ótta er að þetta er þriðji dagurinn í röð sem nýgreindum fjölgar hratt. Heilbrigðisráðherrann brást þegar í stað við með því að gefa það út að höfuðborgarbúar skuli forðast ónauðsynlegar samkomur og hvatti hann fyrirtæki til að halda starfsmönnum sem finna fyrir flensulíkum einkennum heima.
Í vikunni greindust að minnsta kosti 69 smit meðal starfsmanna einnar stærstu vefverslunar Suður-Kóreu, Coupang. Fyrirtækið er með höfuðstöðvar í Seúl. Yfir 4.000 starfsmenn og viðskiptavinir vöruhúss verslunarinnar eru í einangrun. Þessi nýju tilfelli eru rakin til hópsmits meðal gesta nokkurra næturklúbba í höfuðborginni í byrjun mánaðar.
Fjölmiðlar í Suður-Kóreu hafa greint frá því að stjórnendur Coupang hafi ekki séð til þess að starfsmennirnir gætu haldið tveggja metra fjarlægð sín á milli. Þá hafi þeir ekki látið þá bera andlitsgrímur. Einnig hefur komið fram að þeir starfsmenn sem sögðust finna fyrir einkennum voru beðnir að halda áfram að mæta í vinnuna, m.a. konu á fimmtugsaldri sem er talin vera sú fyrsta í hópi starfsmanna vefverslunarinnar sem smitaðist af COVID-19.
Suður-Kórea fór þá leið í aðgerðum sínum að skima ítarlega fyrir veirunni, rekja smit af kappi og setja sýkta í einangrun. Ekki var gripið til harðra lokanna eins og í mörgum öðrum löndum. Hins vegar var fólk hvatt til félagsforðunar, þ.e. að halda fjarlægð sín á milli, forðast mannmarga staði og þar fram eftir götunum.
Til að bregðast við fjölgun nýrra smita hafa yfirvöld ákveðið að frá og með morgundeginum verði söfnum og almenningsgörðum lokað á ný. Þá eru fyrirtæki hvött til að bjóða starfsmönnum upp á sveigjanlegri vinnutíma svo margir séu ekki í sama rými á sama tíma. Íbúar Seúl hafa svo verið hvattir til að forðast mannmarga staði, m.a. veitingastaði og bari. Þá hafa trúfélög verið beðin að sýna sérstaka varkárni á samkomum sínum.
Næstu vikur mikilvægar
„Næstu vær vikurnar munu skera úr um það hvort okkur tekst að koma í veg fyrir fleiri smit á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði heilbrigðisráðherrann Park Neung-hoo. „Við munum þurfa að hverfa aftur til félagsforðunar í ríku mæli ef okkur mistekst.“
Hann benti á að smitleiðirnar væru helst á fjölmennum vinnustöðum og í mannmergð skóla og karíókí-bara. Um 500 skólar hafa frestað því að opna byggingar sínar fyrir nemendum.
Aðgerðum suðurkóreskra stjórnvalda var aflétt um allt landið þann 6. maí. Fyrstu dagana virtist sem afléttingin hefði lítil áhrif en í þessari viku breyttist allt. Þykir þetta undirstrika hættuna sem getur skapast þegar tilslakanir eru gerðar á takmörkunum á samkomum fólks. Fjölmörg lönd eru nú að stíga skref í þá átt í þeirri viðleitni að veita súrefni inn í samfélög sín og efnahag.