Á sex sekúndna fresti að meðaltali tapaðist svæði á stærð við fótboltavöll í regnskógum heimsins í fyrra. Í heild minnkuðu skógar hitabeltisins um tæplega tólf milljónir hektara á síðasta ári, þar af fjórar milljónir hektara af þéttum, gömlum skógum.
Þetta er niðurstaða rannsóknar Háskólans í Maryland á skógareyðingu ársins 2019 sem byggð er á gervitunglamyndum. Skógareyðing utan regnskóganna var einnig meiri í fyrra en árið á undan. Mestu munar um afleiðingar gríðarlegra skógarelda í Ástralíu í lok ársins í fyrra og ársbyrjun 2020. Á síðasta ári tapaðist sex sinnum meira skóglendi í Ástralíu en árið 2018.
Skógar Ástralíu hafa aðlagast árlegum skógareldum líklega í þúsundir ára. Þeir hafa því oftast verið fljótir að ná bata, m.a. skógar tröllatrjánna. En það sem var óvenjulegt við skógareldana nú er að þeir voru mun umfangsmeiri og kröftugri en oftast áður og því brann skóglendi sem hefur hingað til sloppið við eldtungurnar. Í frétt Guardian segir að 33 manneskjur hafi látist í eldunum en að um 445 dauðsföll til viðbótar megi rekja til þeirra, m.a. reykeitrunar sem fólk varð fyrir. Hundruð milljóna dýra drápust.
„Þegar venjubundnir skógareldar geisa þá brenna þeir börk trjánna en eldarnir þetta sumarið breyttu mörgum trjám í kolamola,“ hefur Guardian eftir Rod Taylor sem starfar með Global Forest Watch, samtökum sem greindu gögn Háskólans í Maryland. Hann segir að Ástralar verði að búa sig undir að skógareldar framtíðarinnar verði meiri og skæðari en áður vegna loftslagsbreytinga.
Gögnum um stærð regnskóganna hefur verið aflað með sama hætti frá árinu 2002. Mest voru þeir skertir árin 2016 og 2017 en í fyrra var skerðingin sú þriðja mesta frá upphafi samfelldrar gagnaöflunar með gervitunglamyndum.
Enn er eyðing regnskóganna mest í Brasilíu þar sem stór svæði Amazon voru rudd fyrir landbúnað. Mest jókst skógareyðing milli ára hins vegar í Bólivíu. Í fyrra var hún 80 prósent meiri en árið 2018. Þar í landi eru skógareldar kveiktir viljandi til að brjóta land undir landbúnað en einnig er talið að loftslagsbreytingar hafi átt þátt í eldunum.
Ekki var gengið jafn mikið á skóga Austur-Kongó í miðhluta Afríku í fyrra og tvö árin þar á undan en þar tapaðist þó mikið skóglendi vegna námuvinnslu, skógarhöggs og landbúnaðar.
Frumskógar í Gana og á Fílabeinsströndinni fengu meiri frið í fyrra en oft áður og sömu sögu er að segja frá Indónesíu. Í báðum tilvikum skýrist þetta af ákvörðunum stjórnvalda sem vilja tryggja að skógarnir séu sjálfbærir.