Kóralrifið mikla undan ströndum Queensland fylkis í Ástralíu hefur aldrei glímt við jafn umfangsmikla fölnun (e. bleaching) líkt og í mars síðastliðnum.Samkvæmt frétt Reuters óttast vísindamenn að bati rifsins verði sífellt minni í hvert skipti sem slík fölnun á sér stað. Þetta er í þriðja sinn á síðustu fimm árum sem umfangsmikil fölnun herjar á rifið.
Hækkandi sjávarhiti er talin vera helsta ástæðan fyrir fölnun kóralla. Samkvæmt svari á vísindavefnum orsakast fölnunin af streituástandi sem kemur til vegna hitastigsbreytinga. Þetta streituástand „leiðir til þess að sambýli (e. symbiotic) kórals og ljóstillífandi þörunga (Zooxanthellae), sem sjá honum fyrir orku til vaxtar og viðheldur lit hans, rofnar. Þegar þetta samband rofnar og kórallarnir deyja hefur það gríðarmikil áhrif á aðrar lífverur því kóralrifin eru búsvæði og uppeldisstöðvar fjölda tegunda,“ segir í svari vísindavefsins.
Nýliðinn febrúar var sá heitasti á svæðinu síðan mælingar hófust árið 1900. Í frétt Reuters er haft eftir Terry Hughes, yfirmanni kóralrannsókna við James Cook háskóla, að heitt hafi verið á rifinu endilöngu. Hvorki hafi verið svalara í norðri né suðri líkt og stundum tíðkast.
„Svo heitt var á rifinu að fölnunin í ár er sú umfangsmesta hingað til,“ segir Terry. Hann er nánast fullviss um að rifið muni ekki geta endurheimt sinn fyrri styrk og hann hefur áhyggjur af því að rifið muni á endanum lognast út af ef horfur í hnattrænni hlýnun breytast ekki.
Kóralrifið mikla hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan árið 1981. Rifið nær yfir svæði sem er alls 348 þúsund ferkílómetrar að stærð en til samanburðar er flatarmál Íslands 103 þúsund ferkílómetrar.