Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að það séu til öfl í íslenskum stjórnmálum sem vilji nýta tæknibyltingu til að jafna lífskjör, auka framleiðni og minnka vistspor, sem sé ákjósanleg leið til að veðja á fyrir lítið land eins og Ísland. „Ég tek undir með forsætisráðherranum okkar í grein sem hún birti í Progressive International þar sem hún segir að það sé beinlínis skylda okkar að vinna saman, ekki síst á þessum tímum og að byggja upp félagslegt réttlæti og efnahagslega velsæld. En það er ekki nóg að setja falleg orð niður á blað, það er algjörlega tilgangslaust nema þú framfylgir því með því að mynda þannig stjórn. Við erum ekki með þannig stjórn í augnablikinu en ég ætla svo sannarlega að vona að þessi grein verði ekki gleymd eftir næstu kosningar.“
Stórt land með fáar hendur
Logi segir Ísland sé stórt land með fáar hendur og mjög langt frá öðrum löndum og mörkuðum. „Þannig að það að við veiðum mikinn fisk helgast af því að hvað hægt sé að draga mikið úr sjó og hversu mikið sé hægt að vinna. Það á við um öll þessi hefðbundnu störf sem við höfum byggt afkomu okkar á. Þessi stafræna vara lýtur bara auðvitað allt öðrum lögmálum. Við getum með hugvitinu búið til endalaust magn af stafrænni vöru sem hægt er að koma á markað í fjarlægum heimsálfum á nokkrum sekúndum án þess að það kosti nokkra peninga eða vistspor. Þannig að þessi tæknibylting gæti í rauninni jafnað lífskjör okkar. Hún gæti aukið framleiðni sem er gríðarlega mikilvægt núna þegar fleiri og fleiri eru að verða eldri sem hlutfall af þjóðinni. Og hún gæti líka minnkað vistspor okkar alveg helling. Þetta er ákjósanleg leið að veðja á fyrir lítið land.“
Þekkt stef í málflutningi Loga
Logi hefur margoft lýst því yfir á kjörtímabilinu að hann vilji mynda ákveðna tegund ríkisstjórnar eftir næstu kosningar. Í viðtali við Mannlíf í janúar í fyrra sagði Logi að hann vildi ríkisstjórn með Viðreisn, Pírötum og Vinstri grænum. „Ég held að við gætum náð mjög mörgum skemmtilegum og góðum málum á dagskrá ef við myndum mynda ríkisstjórn frá miðju til vinstri þar sem Samfylkingin væri kjölfestuflokkur og við hefðum svo Viðreisn og Pírata öðrum megin við okkur og Vinstri græn hinum megin við okkur.“
Á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem fór fram í mars 2019 sagði hann að Ísland þyrfti ekki jafnvægi Sjálfstæðisflokksins sem byggði á því að örfáir sitja öðru megin á vegasaltinu, með þorra gæðanna en allur almennings héldi jafnvægi hinum megin.
Á öðrum flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem haldinn var í október í fyrra fjallaði hann meðal annars um, í ræðu sinni þar, hversu stór tíðindi ný staða Sjálfstæðisflokksins vegna minnkandi fylgis væri og að aðrir flokkar þurfi að bregðast við þessum nýja veruleika sem blasti við í íslenskum stjórnmálum. Hann sagði þetta vera sögulegt tækifæri fyrir Samfylkinguna til að fylkja saman umbótaöflunum í landinu og sýna að það sé til betri valkostur fyrir íslenskan almenning en núverandi ríkisstjórn. „Næsta stóra verkefni okkar er þetta: Við verðum, og segjum það bara skýrt, við verðum að fella þessa ríkisstjórn í kosningunum 2021, til að mynda betri, djarfari og víðsýnni stjórn fyrir fólkið í landinu og komandi kynslóðir - við verðum að rísa undir þeirri ábyrgð.“
Í umræðum um stöðuna í stjórnmálum í byrjun árs, sem fram fór á Alþingi 20. janúar síðastliðinn, sagði hann að kominn væri tími til að hætta að láta Sjálfstæðisflokkinn endalaust velja sér nýja dansfélaga eftir kosningar og stjórna eftir eigin geðþótta. „Nú er kominn tími samstilltrar, djarfrar og víðsýnnar stjórnar, án Sjálfstæðisflokksins - fyrir allt fólkið í landinu og komandi kynslóðir. Stjórn sem leggur alla áherslu á ríkara félagslegt réttlæti og hefur á sama tíma meiri sköpunarkraft, framsýni og hugrekki.“