„Fyrir mér er ekkert annað á ferðinni en eitthvað frumhlaup starfsmanns sem síðan lendir í vondri stöðu þegar við bregðumst við með þeim hætti að við teljum að Þorvaldur falli ekki að þessum viðmiðum sem við höfum haft, auk þess sem ég hef sagt og stend við það að ég held að hann sé ekki heppilegur samstarfsaðili ráðuneytisins fyrir þetta verkefni.“
Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun. Á fundinum átti að ræða verklag ráðherrans við tilnefningar í stöður.
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að starfsmaður fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefði komið þeim boðum til kollega sinna í norrænum fjármálaráðuneytum og til Norrænu ráðherranefndarinnar að ráðuneytið gæti ekki stutt að Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, yrði ráðinn sem ritstjóri norræna fræðatímaritsins Nordic Economic Policy Review.
Ekki hefðbundið umsóknarferli
„Þetta mál er þannig vaxið að fjármálaráðuneytin á Norðurlöndunum, undir hatti Norrænu ráðherranefndarinnar, eiga með sér samstarf um útgáfu þessa rits og það mun hafa verið á fyrri hluta þessa árs að menn byrjuðu að ræða saman um það að velja þyrfti ritstjóra fyrir þetta tímarit. Þá eins og venja var til að leggja í púkk nöfn – en þetta er ekki hefðbundið umsóknarferli, þetta er ekki ferli sem er skrifað út í lögum eða með öðrum hætti sambærilegt með stöðum sem losna heldur er þetta samstarf um útgáfu rits sem er ætla að styðja við stefnumótun ríkjanna,“ sagði Bjarni á fundinum.
Þannig að efnistökin í ritið væru valin í samráði fjármálaráðuneytanna – þannig að þær fræðigreinar sem fæddust í þessu samstarfi væru innlegg inn í þá stefnumótun sem ætti sér stað í ríkjunum á Norðurlöndunum. „Þetta hefur okkur þótt mikilvægt,“ sagði Bjarni.
Hann sagði enn fremur að það hefði verði þeirra upplegg frá upphafi í þessu samtali sem farið hefði fram með óformlegum hætti að æskilegt væri að sá sem myndi veljast til starfsins yrði einstaklingur sem hefði nýlega reynslu af stefnumótun í þessum málaflokki. Að viðkomandi hefði sömuleiðis reynslu og hefði stundað einhver fræðiskrif á viðkomandi sviði. Einnig sagði Bjarni að þau hefðu talið að tímabært væri að kona ritstýrði ritinu.
Nafn Þorvaldar kom þeim í opna skjöldu
„Eins og þetta gerist í svona óformlegu samtali milli ríkja þá eru mörg nöfn nefnd til sögunnar. Þau eru ekki öll alþjóðlega þekkt eða á vitorði allra kollega milli ráðuneyta landanna og það spilaðist þannig úr þessu að okkar tillögur í þessu efni loðuðu ekki lengi við í umræðunni þó að þeim hafi verið gefinn gaumur. Og síðan þegar líður fram á haustið þá heldur þessi vinna áfram og það kom okkur í opna skjöldu þegar kemur tillaga að nafni Íslendings inn á þennan vettvang. Nafn sem ég hef tekið fram að hafi aldrei verið nefnt af okkar hálfu, enginn hafði stungið upp á hér heima fyrir og hafði ekki gefið sig fram heldur.“
Bjarni sagði að þau viðbrögð sem hafa verið til umræðu þegar ráðuneytið svaraði hugmyndinni um Þorvald Gylfason skýrast að hans mati af því að það hafði átt sér stað mikið frumhlaup af hálfu starfsmanns nefndarinnar „með því að hann fer að orða það við Þorvald að staða gæti verið hans“.
„Menn búnir að stíga í spínatið“
Bjarni vildi jafnframt vekja athygli á því að margar ríkisstjórnir hefðu starfað undanfarinn áratug og væri honum ekki kunnugt um að nokkur þeirra hefði leitað til Þorvaldar Gylfasonar um aðkomu að stefnumótun. „Þannig að hörð viðbrögð sem birtast í þeim tölvupóstum sem hafa orðið opinberir þar sem menn lýsa furðu á þessari afstöðu okkar og svo framvegis megi skýra af því að menn voru búnir að stíga í spínatið og komnir út af sporinu. Og búnir að lofa hlutum sem þeir gátu ekki staðið við og voru í algjörri umboðsleysu að orða stöðuna við mann og farnir að ræða við hann um kaup og kjör. Svo einfalt er þetta fyrir mér.“
Hann nefndi einnig prófessor Lars og sagði að þarna byggi að baki kunningsskapur þessara manna sem hefði ráðið för. „Þá finnst mér nú málið í heild sinni komið dálítið langt frá því sem það á að snúast um sem er alvöru samtal milli ráðuneytanna inn á réttum vettvangi, það er í þessari stýrinefnd um það hvernig menn ætluðu að haga þessu í framhaldinu.
Að lokum vil ég láta þess getið að af því að hér hefur ítrekað verið nefnt í opinberri umræðu og kemur aftur fram hér að menn hafi gefið rangar upplýsingar um að Þorvaldur hafi verið formaður í stjórnmálaflokki að þá var ekkert fullyrt um það í þessum tölvupósti. Í íslenskri þýðingu myndi maður þýða þetta einhvern veginn þannig: Eftir því sem best er vitað er hann ennþá formaður. Og skömmu síðar er tekið af skarið með það: Hann er ekki formaður. Það var leiðrétt áður en gengið var frá þessum málum,“ sagði Bjarni.