Mörg ríki Bandaríkjanna glíma nú við metfjölda í nýgreindum smitum af COVID-19. Þau ríki sem glíma við mestan hlutfallslegan vöxt í útbreiðslu veirunnar eru: Alabama, Alaska, Arizona, Arkansas, Kalifornía, Flórída, Norður Karólína, Oklahoma og Suður Karólína. Þetta kemur fram í frétt Reuters um málið. Á síðustu dögum hefur smitum einnig fjölgað hratt í Flórída og Texas.
Ótti við að önnur bylgja sé við það að skella á í landinu hefur gert það að verkum að þarlend heilbrigðisyfirvöld biðla nú til almennings um að nota andlitsgrímur og forðast stórar samkomur. Heildarfjöldi greindra smita í landinu er kominn upp í 2,1 milljón.
Heilbrigðisyfirvöld í ríkjum Bandaríkjanna grunar að aukning í smitum megi að einhverju leyti rekja til samkoma sem haldnar voru á minningardegi fallinna hermanna (e. Memorial Day). Að undanförnu hafa ríki Bandaríkjanna þar að auki verið að opna á ný, það er aflétta samkomutakmörkunum og leyfa fyrirtækjum sem þurftu að hætta starfsemi vegna kórónuveirufaraldursins að taka aftur til starfa.
Dr. Nahid Bhadelia, prófessor við Boston-háskóla og yfirmaður smitsjúkdómadeildar Boston Medical Center, gerð það að umtalsefni í Meet the Press á sjónvarpsstöðinni NBC í gær að mögulega hefðu ríki í suður- og vesturhluta Bandaríkjanna opnað of snemma. Þá hefur hún áhyggjur af því hve hátt hlutfall sjúkrarúma sé í notkun í sumum ríkjum. Staðan sé einna verst í Arizona en þar eru 84 prósent sjúkrarúma í notkun. Að hennar mati sé hætta á að sú aukning í smitum sem nú á sér stað geti reynst heilbrigðiskerfinu víða ofviða.
Líkur á að samkomutakmarkanir verði hertar að nýju
Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York ríkis, sagði á blaðamannafundi í gær að mikið hefði verið kvartað undan fyrirtækjum í ríkinu sem færu ekki eftir tilmælum stjórnvalda nú þegar verið er að vinda ofan af samkomutakmörkunum. Hann sagði að ef fyrirtæki gætu ekki farið eftir þessum tilmælum gætu yfirvöld þurft að stöðva framgang opnana og grípa til hertra samkomutakmarkana á ný. Fleiri hafa greinst með kórónuveiruna í New York ríki heldur en í nokkru öðru ríki Bandaríkjanna.
Svipuð staða er uppi á teningnum víðar í Bandaríkjunum. Hægt og rólega hefur lífið verið að komast í samt lag í Houston og aflétting takmarkana staðið yfir síðustu vikur. Í frétt CBS segir að nú gæti hins vegar verið að þar þurfi aftur að skella í lás. Yfirvöld eru auk þess að skoða þann möguleika að koma upp bráðabirgðaspítala fyrir COVID-19 sjúklinga á ruðningsleikvangi þar í borg.
Öflug skimun veldur háum tölum at mati Trumps
Enn stendur til að Donald Trump haldi kosningafund sinn í Tulsa í Oklahoma þann 20. júní næstkomandi, en Oklahoma er eitt af þeim ríkjum sem glíma við hraðan vöxt greindra smita. Gestir fundarins munu þurfa að skrifa undir samkomulag þess efnis að þeir munu ekki lögsækja framboð Trumps ef þeir veikjast í kjölfar fundarins.
Forsetinn tísti fyrr í dag um fjölda greindra smita í landinu sem hann sagði orsakast af öflugri skimun.
Our testing is so much bigger and more advanced than any other country (we have done a great job on this!) that it shows more cases. Without testing, or weak testing, we would be showing almost no cases. Testing is a double edged sword - Makes us look bad, but good to have!!!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) June 15, 2020