Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að ákveðið hafi verið að allt starfsfólk Landspítalans fái greidda sérstaka umbun vegna álags í kjölfar COVID-19 nú um mánaðamótin. Sjálfur er hann þó undanskilinn greiðslunni.
Páll skrifar í forstjórapistli sínum í dag að í byrjun apríl hafi hann óskað eftir því við heilbrigðisráðherra að Landspítalanum yrði gert kleift að umbuna með beinum hætti starfsfólki vegna farsóttarinnar. „Við því var snöfurmannlega brugðist og lagði heilbrigðisráðherra fram tillögu þessa efnis sem Alþingi samþykkti,“ skrifar Páll.
Undanfarnar vikur hafi verið unnið að útfærslu greiðslna til starfsmanna í samstarfi við aðrar heilbrigðisstofnanir. Í nýlegri örkönnun mannauðsdeildar kom fram að nær allir starfsmenn Landspítalans töldu sig hafa orðið fyrir áhrifum í starfi sínu vegna COVID-19. „Það rímar ágætlega við þá ákvörðun að allir starfsmenn, að sjálfum mér og aðstoðarmanni mínum, framkvæmdastjórum og forstöðumönnum undanskildum, munu fá umbun greidda nú um næstu mánaðamót.“
Páll skrifar að auðvitað hafi álagið verið misjafnlega mikið og hefur starfsfólki því verið skipt í tvo hópa. Í hópi A eru þeir starfsmenn sem starfa á einingum sem mest komu að þjónustu við COVID-smitaða og í hópi B eru aðrir starfsmenn spítalans.
Upphæð umbunarinnar fer eftir viðveru starfsmanns í mars og apríl og getur numið allt að 250 þúsund fyrir þá sem skipa A-hóp og 105 þúsund fyrir aðra. „Þetta hefur reynst flókið í útfærslu en við höfum átt mikið samráð hér á spítalanum vegna þessa og teljum að þetta sé sú leið sem rétt er að fara. [...] Umbunin er þakklætisvottur frá stjórnvöldum, sem að mínu mati sýnir skilning á þessu flókna verkefni, sem þó er hvergi nærri lokið.“