Stjórnendur GAMMA hafa, meðal annars á grundvelli þeirra upplýsinga sem komu fram við skoðun endurskoðunarfyrirtækisins Grant Thornton, tilkynnt greiðslur fleiri en eins samstarfsaðila Upphafs fasteignafélags til fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins til héraðssaksóknara.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá GAMMA, en niðurstöður endurskoðunar Grant Thornton á starfsemi fagfjárfestasjóðsins GAMMA: Novus og Upphafs fasteignafélags voru kynntar fyrir eigendum hlutdeildarskírteina í sjóðnum fyrr í dag.
Niðurstaða sérfræðinga Grant Thornton er sú að verulegur skortur var á formfestu við ákvarðanatöku og utanumhald með verkefnum Upphafs fasteignafélags.
Endurskoðendurnir komust að því að oftar en ekki var það einungis einn einstaklingur sem sat við stjórnvölinn og stýrði framkvæmda félagsins, „án virkrar aðkomu eða eftirlits frá stjórn og/eða öðrum aðilum.“
Í tilkynningu GAMMA segir að stundum hafi skriflegir samningar ekki legið til grundvallar verkum og að ákvarðanir og rökstuðningur fyrir þeim hafi ekki verið skjalfestar.
Greint frá greiðslum til framkvæmdastjórans í mars
Þessi eini einstaklingur sem um ræðir er fyrrverandi framkvæmdastjóri Upphafs, Pétur Hannesson. Greint var frá því í Kveik á RÚV seint í marsmánuði að verktaka- og þjónustufyrirtækið VHE ehf. hefði greitt honum eða félagi í hans eigu alls 58 milljónir króna frá 2015 og fram á mitt ár í fyrra.
Kvika banki, sem eignaðist GAMMA í fyrra, lagði fram kæru vegna þessara greiðslna til embættis héraðssaksóknara í mars og þar hafa þær verið rannsakaðar sem meint auðgunarbrot.
Upplýsingar um greiðslurnar frá VHE voru sendar til héraðssaksóknara og nú segja stjórnendur GAMMA að upplýsingar um greiðslur til Péturs frá fleiri en þeim eina aðila hafi verið sendar þangað.
Stundum óljóst hvernig forsendur verðmats voru fundnar
Hvað rekstur GAMMA: Novus varðar, þá kemur fram í niðurstöðum endurskoðendanna að virði eigna sjóðsins hafi verið metið með mismunandi hætti á milli ára og óljóst sé, í sumum tilfellum, hvernig forsendur að baki verðmats voru fundnar.
Eftirstöðvar verka í eigu sjóðsins voru verulega vanmetnar, eins og kom fram mjög skyndilega síðasta haust, þegar hlutdeildarskírteinishöfum var tilkynnt að eigið fé sjóðsins væri 42 milljónir króna, en ekki 4,4 milljarðar króna eins og það var sagt vera síðustu áramót.
Fyrr á síðasta ári hafði GAMMA: Novus ráðist í skuldabréfaútboð upp á 2,7 milljarða króna, en í aðdraganda þess lá raunveruleg staða sjóðsins ekki ljós fyrir.
Fjölmargir fjárfestar, meðal annars tryggingafélög, þurftu að afskrifa verulegar fjárhæðir vegna niðurfærslu sjóðanna. Bókfært tap TM vegna þessa nam um 300 milljónum króna og tryggingafélagið Sjóvá þurfti að bókfæra tap upp á 155 milljónir króna vegna sjóðsins.
Ekki komst upp um slæma stöðu GAMMA: Novus né fleiri sjóða í stýringu GAMMA fyrr en nýtt stjórnendateymi GAMMA fór að skoða málin eftir að Kvika banki keypti allt hlutafé GAMMA í marsmánuði árið 2019.