„Það er auðvitað sérstakt að lögin geri ráð fyrir því að eina leiðin til að fá úrskurði hnekkt sé að fara í mál við einstaklinginn sem kærir.“
Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans varðandi ákvörðun Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, að höfða mál gegn Hafdísi Helgu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, sem kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði nýverið að Lilja hefði brotið jafnréttislög með því að sniðganga í embætti ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
„Eins og fram kom í fréttum fyrir helgi þá gera lögin ráð fyrir þessari heimild ráðherra og kærandi hefur sama úrræði ef málið fer ekki á hans veg,“ segir í svari forsætisráðherra. Katrín telur að full ástæða sé til að skoða þetta „því ekki viljum við að framkvæmd laganna með þessum hætti hafi kælingaráhrif, ef svo mætti segja, á vilja fólks til að leita réttar síns. Ferlið er einmitt hugsað til að tryggja rétt fólks sem telur á sér brotið.“
Forsætisráðherrann tekur undir það með Jafnréttisstofu að til framtíðar litið þurfi að skoða hvort ekki megi útfæra þetta betur þannig að fólki sé ekki stefnt fyrir að nýta rétt sinn en báðir aðilar geti áfram látið reyna á úrskurð kærunefndar fyrir dómstólum. „Það tel ég um að gera nú þegar endurskoðun á jafnréttislögum fer fram og ég er fullviss um að hægt er að breyta þessu fyrirkomulagi til betri vegar,“ segir hún.
Katrín segir enn fremur að í þessu tiltekna máli hafi mennta- og menningarmálaráðherra ákveðið að nýta sér þessa heimild laganna vegna annmarka sem hún telur á úrskurði kærunefndar. Lilja hafi upplýsti hana um þá ákvörðun en hvað varðar efnisatriði málsins vísar Katrín á mennta- og menningarmálaráðherra.
Vanmat Hafdísi Helgu í samanburði við Pál
Forsagan er sú að greint var frá því í byrjun mánaðar að Lilja hefði brotið jafnréttislög við skipun Páls Magnússonar í embætti ráðuneytisstjóra í fyrra, samkvæmt úrskurði kærunefndar jafnréttismála. Hún hefði vanmetið Hafdísi Helgu í samanburði við Pál. Hæfisnefnd hafði ekki talið Hafdísi Helgu í hópi þeirra fjögurra sem hæfastir voru taldir í starfið.
Páll, sem var skipaður í embættið síðla árs í fyrra, hefur um árabil gegn trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn en hann var varaþingmaður Framsóknarflokksins í tvö kjörtímabil í kringum árið 2000 og aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur ráðherra Framsóknarflokksins.