Framkvæmdastjórn Landspítalans hefur kallað formlega eftir athugasemdum frá stjórnendum deilda spítalans vegna óánægju heilbrigðisstarfsfólks úr bakvarðasveitinni með álagsgreiðslur sem greiða á út á morgun. Bakverðir komu flestir til starfa á heilbrigðisstofnunum er faraldurinn stóð sem hæst en nokkrir þeirra hafa í dag lýst opinberlega yfir vonbrigðum með að fá mjög lága álagsgreiðslu.
Einn bakvarðanna, svæfingarhjúkrunarfræðingurinn Arna Rut O. Gunnarsdóttir, lýsti því í samtali við Kjarnann í dag að hún teldi þá upphæð sem hún fær „niðurlægjandi“ og engan veginn endurspegla hennar framlag á gjörgæsludeild Landspítalans. Arna Rut er búsett á Akureyri. Hún starfaði um árabil á Sjúkrahúsinu á Akureyri en skipti um starfsvettvang árið 2018. Er faraldur COVID-19 blossaði upp hér á landi ákvað hún þegar í stað að skrá sig í bakvarðasveitina og vegna sérþekkingu hennar var hún beðin að koma til starfa á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi, sem hafði verið helguð sjúklingum með COVID-19. Hún vann margar og langar vaktir, alls yfir 170 vinnustundir í apríl er faraldurinn stóð sem hæst.
Í miðjum faraldrinum var þegar farið að ræða um það að greiða heilbrigðisstarfsfólki sérstaka umbun vegna álagsins. Einn milljarður króna var svo settur inn í fjáraukalög og átti hann að greiða því starfsfólki sem stóð í framlínunni í baráttunni við faraldurinn. Ákveðið var að 750 milljónir myndu renna til starfsmanna Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri en afgangurinn til heilsugæslunnar og annarra heilbrigðisstofnana í landinu.
Síðar tilkynnti Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, að allt starfsfólk sjúkrahússins fengi greitt vegna álagsins en mismikið eftir því á hvaða deildum það vinnur. Og á hvaða tíma. Þannig var ákveðið að upphæðin færi eftir viðveru starfsmanns í mars og apríl. Þeir sem unnu náið við umönnun COVID-sjúklinga gátu fengið allt að 250 þúsund krónur.
Þar sem Arna er ekki fastur starfsmaður og hafði því ekki unnið á spítalanum í mars fékk hún allt aðra upphæð: 26.938 krónur. Útborgað: 16.100 krónur.
Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, segir við Kjarnann að málið hafi verið rætt á fundi framkvæmdastjórnar sjúkrahússins í dag. Á þeim fundi var ákveðið að kalla eftir athugasemdum frá stjórnendum svo unnt væri að gera leiðréttingar ef við á.