Staðfest er að tólf einstaklingar eru með virk smit af kórónuveirunni hér á landi. Af smitum sem greinst hafa hér á landi frá því að landamæraskimun hófst 15. júní eða fyrir tveimur vikum, má rekja uppruna sex hingað til lands en 24 komu erlendis frá. Í tveimur tilvikum er ekki vitað um upprunann.
Á vefsíðunni COVID.is kemur fram að tvö smit af kórónuveirunni hafi verið staðfest hér á landi í gær, annað úr sýni sem Íslensk erfðagreining tók og hitt úr landamæraskimun. Aðeins fjögur virk smit hafa greinst við landamærin síðustu vær vikur og er smitið í gær ekki eitt þeirra.
Mikill fjöldi sýna var tekinn á landinu í gær, 1.416 við landamærin, 408 hjá Íslenskri erfðagreiningu og 56 hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Samtals hafa 13.887 sýni verið tekin við landamæri Íslands frá því að skimun þar hófst.
Á morgun, 1. júlí, hefst gjaldtaka á skimun við landamærin. Gjaldið er 9.000 krónur ef greitt er fyrirfram en 11.000 ef greitt er við komuna til landsins.
Fyrsta kórónuveirusmitið greindist hér á landi í lok febrúar. Smitum fækkað ört frá miðjum apríl en hópsmit kom í síðustu viku upp á höfuðborgarsvæðinu. Það er rakið til Bandaríkjanna. Í gær voru 415 manns komnir í sóttkví.