Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur lagt fram drög að lagafrumvarpi um stjórnsýslu jafnréttismála í samráðsgátt stjórnvalda. Með þeim breytingum sem lagðar eru til yrði meðal annars komið í veg að sú staða gæti komið aftur upp að ráðherra eða einhver annar þurfi að stefna kæranda í jafnréttismáli einum fyrir dóm til að fá niðurstöðu nefndarinnar hnekkt.
Það er einmitt sú staða sem kom upp í síðasta mánuði, eftir að Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ákvað að una ekki þeirri niðurstöðu sem kærunefnd jafnréttismála komst að í máli Hafdísar Helgu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, sem sóttist eftir starfi ráðuneytisstjóra í ráðuneyti Lilju.
Lilja hefur stefnt Hafdísi persónulega fyrir dóm vegna málsins, eftir að hafa aflað sér lögfræðiálita sem að sögn ráðuneytisins bentu á lagalega annmarka í úrskurði kærunefndarinnar. Ráðuneytið hefur neitað að láta þessi lögfræðiálit í hendur Kjarnans svo hægt sé að upplýsa almenning um efni þeirra. Synjunin hefur verið kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Eina leiðin til að fá úrskurðinum hnekkt
Lagalega voru Lilju engir aðrir vegir færir til þess að fá úrskurðinum hnekkt og hefur forsætisráðherra bent á að hún telji full ástæða til þess að skoða breytingar á þessu, „því ekki viljum við að framkvæmd laganna með þessum hætti hafi kælingaráhrif, ef svo mætti segja, á vilja fólks til að leita réttar síns. Ferlið er einmitt hugsað til að tryggja rétt fólks sem telur á sér brotið.“
Í skriflegu svari til Kjarnans undir lok júnímánaðar sagði Katrín að það væri „auðvitað sérstakt að lögin geri ráð fyrir því að eina leiðin til að fá úrskurði hnekkt sé að fara í mál við einstaklinginn sem kærir.“
Nú hafa sem áður segir verið lögð fram frumvarpsdrög þar sem þessu er breytt, á þann veg að sá sem unir ekki niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála mun stefna nefndinni sjálfri, auk kærandans. Þetta mun ef til vill breyta ásýnd málanna nokkuð, en athygli vakti í máli Lilju gegn Hafdísi Helgu að ráðherra í ríkisstjórn Íslands væri að stefna borgara sem leitaði réttar síns hjá stjórnsýslunefnd.
„Enginn þekkir betur á hvaða grunni úrskurður nefndarinnar er byggður en nefndin sjálf og því er rétt að hún sjái um að færa fram málsástæður og lagarök fyrir því af hverju úrskurðurinn sé löglegur og réttur, en ekki kærandi einn eins og núverandi skipan mála er hagað,“ segir í umfjöllun um frumvarpsdrögin í samráðsgáttinni.
Þó er tekið fram að eftir sem áður hafi kærandi kost á að koma að öllum viðhorfum sínum varðandi málið til skila fyrir dómstólum, þar sem hann teljist einnig til varnaraðila málsins.
Einnig verður tryggt, samkvæmt frumvarpsdrögunum, að málskostnaður vegna dómsmála sem þessara á öllum dómstigum verði áfram greiddur úr ríkissjóði.
Auknar kröfur til nefndarmanna um sérþekkingu á jafnréttismálum
Í frumvarpsdrögunum er lagt til að kröfur um sérþekkingu nefndarmanna í kærunefnd jafnréttismála verði auknar. Lagt er til að a.m.k. tveir nefndarmenn, þar á meðal formaður nefndarinnar, skuli hafa sérþekkingu á jafnréttismálum.
Einn skal hafa sérþekkingu á jafnrétti kynjanna og annar á jafnrétti í víðtækari merkingu, þar sem þau mál sem koma til kasta kærunefndarinnar lúta jú að öðrum atriðum en eingöngu jafnrétti kynjanna.
Í því skyni að tryggja að þessi sérþekking haldist innan dómstólsins þrátt fyrir að skipt verði um fulltrúa er lagt til að fulltrúar í nefndinni verði ekki skipaðir á sama tíma.