Ísraelsk yfirvöld hlutu í vor lof fyrir viðbrögð sín við kórónuveirufaraldrinum en nú er veiran komin aftur og daglegum tilfellum greindra sýkinga hefur fjölgað hraðar en nokkru sinni fyrr. Óttast er að sjúkrahús verði orðin yfirfull í lok mánaðarins.
Yfir 30 þúsund manns hafa nú greinst með COVID-19 í Ísrael. Yfirvöldum hafði tekist að „fletja kúrfuna“ og afléttu takmörkunum á ferðalögum og samkomum í lok maí. Líkamsræktarstöðvar voru opnaðar að nýju og sömuleiðis veitinga- og kaffihús.
Það er þó ekki á þessum stöðum sem veiran hefur náð að breiðast út síðustu vikur. Það hefur hún gert í brúðkaupsveislum.
Um leið og kaffihús og aðrir samkomustaðir voru opnaðir var fjöldatakmörkunum á samkomum aflétt. Í fréttum Washington Post um þróunina er haft eftir ísraelskum embættismanni að vísindamenn hafi rakið hópsmit til stórra samkoma og þá aðallega brúðkaupa. Sprenging varð í fjölda brúðkaupa í júní og voru 2092 haldin frá 15. júní til 25 júní, á aðeins tíu daga tímabili. Veislurnar margmennu urðu svo að „útungunarstöðvum“ fyrir veiruna.
Útbreiðslan varð hröð því í veislurnar mætir fólk víðs vegar að af landinu til að fagna með brúðhjónunum. „Fólk faðmast, það syngur saman og það dansar saman. Það eru kjöraðstæður til að smita fólk,“ hefur Washington Post eftir embættismanninum.
Ísraelsk yfirvöld vilja nú vara aðrar þjóðir við því að brúðkaupsveislur séu kjörlendi veirunnar þetta sumarið. Á mánudag var gripið til þess ráðs að loka sölum þar sem slíkar veislur eru haldnar auk þess sem ýmsar aðrar takmarkanir tóku aftur gildi. Tónleikasölum var lokað sem og almenningssundlaugum. Á veitingastöðum mega ekki fleiri en tuttugu manns sitja innandyra og þrjátíu utandyra. Þá mega aðeins nítján koma saman í bænahúsum.
Í frétt Washington Post segir að sjúkrahúsin séu óðum að fyllast af alvarlega veiku fólki. Fjöldi COVID-sjúklinga tvöfaldist milli daga.
Smitrakningu ábótavant
Yfir 20 þúsund sýni eru tekin daglega í Ísrael. Hins vegar hafa yfirvöld viðurkennt að smitrakningu sé ábótavant. Til að hún megi verða betri þarf fleira fólk með reynslu.
Ísraelar voru farnir að njóta frelsisins og takmarkanir voru að baki. En bakslagið sem nú er komið upp hefur orðið til þess að háværar gagnrýnisraddir beinast nú að stjórnvöldum. Það er gagnrýnt að afléttingarnar hafi orðið til þess að fólk flykktist á bari, strandirnar og út á götur eins og ekkert hefði í skorist á meðan hættan á annarri bylgju faraldursins vofði stöðugt yfir.
Dan Ben-David, prófessor við háskólann í Tel Aviv, segir hópsýkingarnar hafa verið fyrirséðar. „Veiran er ekki hætt að vera smitandi. Við hverju bjuggust menn þegar allt var opnað? Það hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta allt. Þess vegna er þetta ekkert annað en harmleikur.“