Forsvarsmenn Gáru skipafélags neita að tjá sig um þær sóttvarnaráðstafanir sem gerðar hafa verið vegna komu fólks sem hyggst sigla með farþegaskipinu Boreal. Félagið er umboðsaðili Boreal hér á landi. Farþegar sem ætla að sigla með skipinu koma með leiguflugi frá París á morgun.
Samkvæmt frétt á vef Faxaflóahafna munu allir farþegar fara í skimun á Keflavíkurflugvelli. Þaðan verða farþegarnir svo fluttir með rútum, um það bil tíu til fimmtán í hverri rútu niður á Miðbakka í Reykjavík. Þegar neikvæð niðurstaða skimunar er komin má fólk svo fara um borð í skipið. Í fréttinni segir einnig að við komu skipanna verði að öllu leyti farið eftir fyrirmælum frá landlækni og Almannavörnum og að engar undantekningar verði gerðar.
Ábyrgð Faxaflóahafna snýr að skipinu, ekki fólkinu
Inntur eftir því hvaða aðstaða bíði farþeganna á Miðbakka sagði Gísli Hallsson, yfirhafnsögumaður hjá Faxaflóahöfnum, í samtali við Kjarnann að það væri aðallega ferðaskipuleggjendur sem sæju um móttöku fólksins. Hlutverk Faxaflóahafna væri bara að taka á móti skipinu sem slíku, sjá um hafnsögu og að binda það við bryggju.
Gísli benti þó á að á Miðbakka væru gámahús þar sem fólkið gæti dvalið á meðan það biði eftir því að fá að ganga um borð. Þar gætu á venjulegum degi verið um 60 til 80 manns. En spurður að því hvort að hann hefði fengið einhverjar upplýsingar um hvernig komu fólksins yrði háttað sagði Gísli að öryggisfulltrúinn væri með það allt á hreinu.
Að öðru leyti vísaði hann á Gáru skipafélag sem sér um öll málefni Boreal hér á landi og ber ábyrgð á fólkinu milli flugstöðvar og skips.
Starfsmenn Gáru of uppteknir til að svara spurningum um ráðstafanir
Spurður að því hvaða sóttvarnaráðstafanir fyrirtækið hefði ráðist í sagði Jón Auðun Auðunarson hjá Gáru að hann hefði ekki heimild til þess að tala um það og vísaði á markaðsstjóra fyrirtækisins sem væri að vísu í fríi í Þórsmörk. Í ljósi þess að tveir dagar væru í komu farþeganna þegar símtalið átti sér stað spurði blaðamaður hvort að hann gæti tjáð sig eitthvað um plön fyrirtækisins er varða komu farþeganna. „Það er bara nóg að gera hjá okkur og ég verð bara að hætta að tala núna. Þakka þér fyrir,“ svaraði Jón Auðun og skellti svo á.
Markaðsstjóri Gáru átti að vera til viðtals í morgun, föstudag, og því var önnur tilraun gerð til að komast að því hvaða ráðstafanir fyrirtækið hefði gert vegna komu farþeganna. Blaðamaður fékk samband við Jóhann Bogason, framkvæmdastjóra Gáru, sem sagðist ekki hafa tíma til að tjá sig um málið. „Kannski get ég látið hringja í þig seinni partinn, ekki fyrr,“ og þar með lauk símtalinu.
Á von á um 60 farþegum
Þar sem ekki fengust upplýsingar um sóttvarnaráðstafanir hjá Gáru leitaði Kjarninn til Emmu Kjartansdóttur hjá ferðaskrifstofunni Iceland Travel sem sér um að koma farþegunum frá Keflavíkurflugvelli niður á Miðbakka.
Hún sagði að von væri á um 60 einstaklingum með leiguflugi frá París. Eins og áður segir fara farþegarnir í skimun á Keflavíkurflugvelli og svo er þeim skutlað þaðan með rútu niður á Miðbakka. „Svo hinkra þau þar, þangað til að þau eru komin með niðurstöðu úr testinu. Það á að ganga frekar hratt fyrir sig, þau eru svo fá. Það er tekið sýni úr allri vélinni og send. Og svo fara þau bara um borð í skipið og sigla til Grænlands.“
Emma sagði að fín aðstaða væri á Miðbakka til að taka á móti þessu fólki. Fólk gæti beðið þar en því væri auk þess heimilt að ganga um ef það héldi tveggja metra fjarlægð.
„Þau fá bara allar upplýsingar í skimun um hvaða reglur gilda meðan þú ert að bíða eftir niðurstöðu. Það er að halda fjarlægð og þau mega ekkert vera innan um fólk sko, þau mega ekkert vera nálægt einhverju fólki. En þetta er bara eins og við í sóttkví, þá máttu fara í göngutúr, þú þarft bara að halda fjarlægð. Og við erum að tala um einhverja tvo til þrjá tíma um miðjan dag,“ sagði Emma.
Allt gert til þess að halda farþegunum frá öðru fólki
Hún benti auk þess á að mikið væri gert til þess að tryggja að farþegar skipsins umgengjust ekki annað fólk. „Þau eru náttúrlega að fara í vikusiglingu þannig að þau er miklu hræddari við að fá smit heldur en eitthvað annað, þannig að það er enginn að taka neina sénsa. Það er verið að halda þeim til hliðar á flugvellinum og í þessu leiguflugi og allt. Það er allt gert til þess að halda því frá öðru fólki því það má ekki koma upp smit um borð í þessu skipi.“
Í þeim upplýsingum sem ferðamönnum eru gefnar við komuna til landsins kemur fram að fólk geti vænst niðurstöðu úr skimun samdægurs hafi fólk farið í skimun fyrripart dags. Þá eru ferðamenn beðnir um að halda beint á dvalarstað sinn meðan beðið er eftir niðurstöðu og takmarka samneyti við annað fólk eins mikið og hægt er.