Ný rannsókn vísindamanna við King‘s-háskólann í London vekur spurningar um hversu lengi ónæmi þeirra sem hafa sýkst af COVID-19 og náð bata vari. Vísindamennirnir rannsökuðu hversu mikla vörn mótefnin sem verða til verjast veirunni og hversu lengi þessi mótefni haldast í líkamanum.
Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að magn mótefna minnkar þegar á fyrstu þremur mánuðum eftir að þau myndast. Í rannsókninni var stuðst við upplýsingar 96 manna sem fengið höfðu sjúkdóminn og myndað mótefni.
Það sem er ekki ljóst er hvort að minnkandi magn mótefna á svo stuttum tíma verði til þess að fólk geti sýkst aftur af veirunni. Í frétt BBC um rannsóknina segir að mótefni t.d. gegn algengu kvefi sé aðeins í líkamanum í stuttan tíma. Síðan getur fólk sýkst aftur af veirunni sem kvefinu veldur.
Vísindamennirnir minna á að þó að ekkert mótefni mælist eftir ákveðinn tíma þurfi það ekki að þýða að viðkomandi sé ekki ónæmur fyrir endurtekinni sýkingu. Mótefni séu ekki það eina sem verndi okkur. Til þess hafi líkaminn fleiri ráð.
SARS-CoV-2 er ný veira og því er takmarkaðar ályktanir hægt að draga af niðurstöðum rannsókna á ýmsum þáttum hennar, t.d. ónæmi gegn henni. Því þarf að halda rannsókninni við King‘s-háskóla áfram og kanna hvað gerist ef fólkið sem tók þátt kemst í snertingu við veiruna í annað og jafnvel þriðja sinn.
Rannsóknin mun koma að gagni við þróun bóluefna og hversu oft þarf að bólusetja til að tryggja stöðugt ónæmi hjá fólki.