Í skugga faraldurs kórónuveirunnar braust út annar faraldur. Sá bitnar helst á konum sem voru – og eru sumar enn –innilokaðar á heimilum sínum með ofbeldishneigðum maka eða öðrum sér nákomnum. Einangrunin jók þá spennu og það álag sem varð vegna áhyggna af heilsu, öryggi og fjárhag. Á þessa hættu hafa framkvæmdastýrur UN Women og Kvennaathvarfsins á Íslandi bent. UN Women vöktu í apríl athygli á því að heimilisofbeldi er útbreiddasta mannréttindabrot heims en jafnframt það sem sjaldnast fréttist af. Slíkt ofbeldi aukist á krepputímum því þá magnist þörf gerenda til að leita útrásar fyrir valda- og drottnunargirnd sína á kostnað fórnarlamba sinna.
„Konur einangrast með ofbeldishneigðum maka, eru aðskildar frá því fólki og þeim úrræðum sem best gagnast þeim. Þetta eru kjöraðstæður fyrir drottnun og ofbeldi fyrir luktum dyrum,“ sagði Phumzile Mlambo-Ngcuka framkvæmdastjóri UN Women, Jafnréttisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, í vor.
Þetta eru sláandi orð. En þau eru ekki sögð án tilefnis og rökstuðnings. UN Women hafa bent á að fjöldi tilkynninga um heimilisofbeldi þrefaldaðist í Kína er faraldurinn stóð sem hæst og útgöngubann og aðrar takmarkanir voru í gildi. Það jókst um 14 prósent í Finnlandi og um rúmlega 20 prósent í Bandaríkjunum.
Þetta er ekki tæmandi listi.
Á Spáni jókst heimilisofbeldi um þriðjung. Einnig í Frakklandi og Singapúr.
Og Ísland er hér ekki undanskilið.
Það sem af er ári hefur lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist 15 prósent fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi en að meðaltali á sama tímabili síðustu þrjú ár. Í júní bárust 68 tilkynningar.
Heimilisofbeldi er ofbeldi sem einstaklingur verður fyrir af hálfu einhvers sem er honum nákominn, tengdur eða skyldur. Ofbeldið getur verið líkamlegt, andlegt, kynferðislegt, fjárhagslegt eða jafnvel stafrænt. Þar sem gerandi og þolandi tengjast á þolandi oft erfiðara um vik með að slíta tengslum við gerandann og áhrif ofbeldisins verða djúpstæðari.
Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, sagði á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í byrjun apríl að kannanir sýndu, sem og reynsla annarra landa, að í aðstæðum á borð við heimsfaraldur, þar sem ýmsar takmarkanir eru settar á athafnir fólks, skapist hætta á auknu heimilisofbeldi.
Í samtali við Kjarnann nú bendir hún á að aðsókn í Kvennaathvarfinu endurspegli ekki endilega strax þá stöðu sem upp er komin út í samfélaginu. Á fyrstu sex mánuðum ársins dvöldu áttatíu konur í Kvennaathvarfinu en á sama tíma í fyrra var fjöldinn 74.
Sigþrúður minnir á að alltaf sé sveifla í fjöldanum á milli mánaða og ára og því ómögulegt að draga miklar ályktanir út frá fjölgun milli ára að svo stöddu. Hins vegar hafi töluvert fleiri konur komið til viðtals í Kvennaathvarfið í ár en á sama tíma í fyrra án þess að til dvalar í athvarfinu kæmi. Í fyrra komu 145 konur í viðtal fyrstu sex mánuði ársins en í ár var fjöldinn 180.
„Góðu fréttirnar eru þær að fjöldi þeirra kvenna sem fer úr athvarfinu og aftur heim til ofbeldismannsins það sem af er ári er ekki að aukast milli ára þrátt fyrir þessar aðstæður í samfélaginu,“ segir Sigþrúður. Í ár hafi 12 prósent kvennanna snúið aftur til ofbeldismannsins en í fyrra var hlutfallið 14 prósent. Fyrir fram óttaðist Sigþrúður að fleiri konur en áður myndu sjá þann eina kost að snúa aftur í aðstæðurnar en miðað við tölfræðina virðist svo ekki vera.
Þegar þær ástæður sem konurnar gefa fyrir komu í Kvennaathvarfið eru skoðaðar sést að í ár eru þær oftar en í fyrra kynferðislegt ofbeldi og ofbeldi gegn börnum. „Við erum að vona að ástæðan fyrir því að fleiri konur segi frá ofbeldi gegn börnum sé sú að það hefur verið hamrað á því undanfarna mánuði að ofbeldi á heimilum sé ofbeldi gegn börnum þó það beinist ekki af þeim sérstaklega,“ segir Sigþrúður. „Við vitum þetta auðvitað ekki en vonum að þetta sé skýringin frekar en að ofbeldi gegn börnum sé að aukast.“