Skjálftahrinan sem gengið hefur yfir Reykjanesskagann er ekki beintengd skjálftahrinunni í Tjörnesbrotabeltinu að undanförnu. Þetta segir Bryndís Brandsdóttir, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, í samtali við Kjarnann.
Skjálfti af stærðinni fimm varð skömmu fyrir miðnætti í gærkvöldi skammt frá Fagradalsfjalli. Síðan þá hafa margir minni skjálftar orðið á svæðinu, þar af tveir stærri en fjögur stig. Þegar fyrsti stóri skjálftinn varð á Reykjanesi var ekki sólarhringur liðinn frá því að skjálfti af stærð 4,4 mældist um tíu kílómetra norð-norðvestur af Gjögurtá.
Skjálftarnir ekki fyrirboði eldgoss
Bryndís segir þessa skjálfta sitt hvoru megin á landinu ekki tengjast. „Þetta tengist nú ekki, það er allavega mjög langsótt. Þetta eru nú ekki það stórir skjálftar þó þeir séu rúmlega fjögur stig að stærð. Þú getur séð á því hvernig þeir finnast, hvaða áhrif þeir hafa. Þeir hafa nú ekki mikil áhrif suður í land, þetta sem er að gerast fyrir norðan. En það eru þarna misgengi á báðum stöðum sem eru að hreyfast.“
Spurð að því hvort jarðhræringarnar gefi til kynna að von sé á gosi segir Bryndís svo ekki vera. „En Grímsvötn eru komin á tíma, mælingar á landrisi á svæðinu sýna að þau hafa tútnað út og eru komin í sömu hæð og þau voru þegar það gaus síðast 2011,“ segir hún.
Óvíst með framhaldið
Á þessu stigi málsins er erfitt að segja til um framhaldið að mati Bryndísar. „Það er í rauninni ómögulegt að segja. Það er búin að vera þrálát virkni þarna á Reykjanesi og auðvitað tengist þetta eitthvað landrisi við Þorbjörn. Og það er enginn tilbúinn til að segja neitt um það hvernig það mun halda áfram, við verðum bara að fylgjast með og veðurstofan er með mæla á svæðinu. Þau þurfa sinn tíma til að fara yfir þetta og fá nákvæmari staðfestingar.
Þú verður eiginlega að hringja í mig eftir ár ef þú vilt fá nákvæmari upplýsingar,“ segir Bryndís kímin að lokum.
Í janúar hófst landris við fellið Þorbjörn skammt frá Grindavík samhliða jarðskjálftahrinu. Um tíma stöðvaðist landrisið en um miðjan júní hafði land þar risið um 12 sentímetra.