„Það er nánast ekkert innanlandssmit í gangi og það er mjög ánægjulegt," sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir á upplýsingafundi Almannavarna í dag. Fundirnir hafa verið haldnir reglulega frá því í lok febrúar en eftir fundinn í dag verður gert hlé.
Að vanda fór Þórólfur yfir helstu tölur síðasta sólarhringinn. Sýni voru tekin úr 2.100 manns á landamærum í gær en um 2.300 manns komu til landsins. Eitt virkt smit greindist á landamærunum, enginn var með gamalt smit og enginn er að bíða eftir niðurstöðum, eftir því sem fram kom í máli Þórólfs á fundinum.
Frá 15. júní síðastliðnum hafa rúmlega 70 þúsund farþegar komið til landsins og um 50 þúsund sýni hafa verið tekin. Tuttugu manns hafa greinst með virkt smit á þessu tímabili og rúmlega 90 með gömul smit. Ellefu einstaklingar hafa greinst með innanlandssmit en síðasta smit innanlands greindist 2. júlí.
Ekki von á bóluefni fyrr en í lok næsta árs
Þórólfur kom sérstaklega inn á alþjóðlegt samstarf um þróun bóluefnis sem farið er í gang. Ísland verður aðili að samstarfsverkefninu COVAX sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) og fleiri stofnanir og fjölmörg lönd eru aðilar að.
Kostnaður við bóluefni er áætlaður að verði um 35 dollarar á hvern skammt eða um 5.000 krónur. Hver einstaklingur þarf tvo skammta til að bólusetning verði að fullu virk. Kostnaður við að bólusetja um fimmtung þjóðarinnar gæti því orðið um 700 milljónir króna.
Níu bóluefnaframleiðendur hafa verið valdir til samstarfsins, þar af eru sex með bóluefni í klínískum rannsóknum nú þegar. Þórólfur sagði á fundinum að vantað hefði samhæfingu í þessa vinnu og því hafi WHO stofnað þennan vettvang fyrir samvinnu. Með þessu á að tryggja réttláta dreifingu á bóluefni milli landa og með því að taka þátt tryggir Ísland sér sanngjarnan aðgang að bóluefni þegar þar að kemur.
Að sögn Þórólfs má gera ráð fyrir að bóluefni verði komið á markað í lok næsta árs, í það minnsta verði ekki mikið framboð af bóluefni fyrr en þá. „Það tekur langan tíma að þróa, rannsaka, markaðssetja og dreifa bóluefni um allan heim," sagði Þórólfur á fundinum og benti á að ólíklegt væri að unnt yrði að hraða þessu ferli mikið meira.