„Heilt yfir metur Umhverfisstofnun áhrif endurræsingar 1. áfanga og uppbyggingar kísilverksmiðju Stakksbergs í Helguvík, í fulla virkni 4. áfanga, vera talsvert neikvæð frá núverandi stöðu. Óvissa er um áhrif endurræsingar og gæði mengunarvarna án neyðarskorsteins. Umhverfisstofnun telur hættu á rekstraróstöðugleika með fyrirliggjandi fyrirkomulagi um starfsemi án neyðarskorsteins/a. Við þær aðstæður telur stofnunin mögulegt að áhrif verksmiðjunnar á loftgæði verði verulega neikvæð, bæði ryklosunar og lyktarmengunar. Þá eru áhrifin ekki aðeins staðbundin við iðnaðarsvæðið í Helguvík heldur einnig svæðisbundin m.t.t. ásýndar.“
Þetta eru lokaorð í ítarlegri umsögn Umhverfisstofnunar um frummatsskýrslu Stakksbergs á áformaðri endurræsingu og stækkun kísilversins í Helguvík. Kísilver United Silicon í Helguvík, sem starfrækt var um nokkurra mánaða skeið á árunum 2016-2017 olli íbúum Reykjanesbæjar óþægindum. Reksturinn gekk brösuglega allt frá upphafi, illa gekk að halda ljósbogaofni versins stöðugum svo oftsinnis þurfti að slökkva á honum og kveikja upp á nýjan leik. Það er við þær aðstæður sem mest hætta á mengun verður. Umhverfisstofnun ákvað að stöðva reksturinn haustið 2017. United Silicon varð gjaldþrota en eigandi verksmiðjunnar í dag er Stakksberg, félag sem er alfarið í eigu Arion banka.
Stakksberg hyggst gera endurbætur á verksmiðjunni, endurræsa hana og stækka svo í áföngum þar til ofnarnir verða fjórir. Í frummatsskýrslu er lagt mat á þau áhrif sem þær fyrirætlanir gætu haft.
Umhverfisstofnun er ósammála Stakksbergi að ýmsu leyti hvað áhrifin varðar. Þannig telur hún til dæmis að áhrif á loftgæði gætu orðið talsvert neikvæð en ekki nokkuð neikvæð eins og fram kemur í skýrslu Stakksbergs. Þá telur stofnunin að áhrif á loftgæði yrðu ekki endilega afturkræf og ef rekstaróstöðugleiki skapist geti þau orðið verulega neikvæð.
En hvað þýða þessar vægiseinkunnir sem gefnar eru í skýrslum um mat á umhverfisáhrifum og umsögnum stofnana?
Allt hvílir ferlið á lögum um mat á umhverfisáhrifum frá árinu 2000 með síðari breytingum. Og til að glöggva sig á orðavalinu er gagnlegt að skoða leiðbeiningar Skipulagsstofnunar um flokkun umhverfisþátta, viðmið einkenni og vægi umhverfisáhrifa.
Þegar meta á áhrif tiltekinnar framkvæmdar, s.s. umfang og vægi áhrifa, á ákveðna umhverfisþætti (t.d. andrúmsloft) þarf að liggja fyrir við hvað er miðað við matið. Grundvöllur slíks mats er m.a. fyrirliggjandi stefna um viðkomandi umhverfisþætti sem að finna má lögum og reglugerðum, alþjóðasamningum og ýmsum stefnuskjölum stjórnvalda. Sem dæmi um viðmið má nefna viðmiðunarmörk fyrir styrk brennisteinsdíoxíð (SO2) í útblæstri frá verksmiðju er viðmið sem notað er til að meta áhrif verksmiðjunnar á umhverfisþáttinn andrúmsloft, segir í leiðbeiningunum.
Í þeim er að finna yfirlit yfir þau viðmið sem sett eru fram í hinum ýmsu stefnuskjölum um umhverfismál sem gilda hér á landi. Yfirlitið er þó ekki sagt tæmandi og fram kemur að í huga þurfi að hafa að tiltekin viðmið geti breyst og önnur bæst við með tilkomu nýrra stefnuskjala, svo sem nýrra laga og reglugerða.
Ýmsir þættir eru skoðaðir
Umhverfisþættir sem eru til skoðunar við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda eru t.d. andrúmsloft og veðurfar, vatn og sjór, land og sjávarbotn, vistkerfi, heilsa og öryggi, landslag, náttúru- og menningarminjar og hagrænir og félagslegir þættir.
Í lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda segir að í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum skuli tilgreina bein, óbein, uppsöfnuð og samvirk áhrif framkvæmdar á umhverfið. Í reglugerð frá árinu 2005 eru einkenni umhverfisáhrifa flokkuð í bein og óbein áhrif, jákvæð og neikvæð áhrif, varanleg og tímabundin áhrif, afturkræf og óafturkræf áhrif, samvirk og sammögnuð áhrif.
Einkenni áhrifa
Þegar unnið er að lýsingu og mati á áhrifum framkvæmdar á umhverfið þarf að gera grein fyrir einkennum áhrifanna. Til að stuðla að samræmdri umfjöllun um áhrif í matsskýrslum réðist Skipulagsstofnun í að skilgreina þessi einkenni. Auk þess eru í leiðbeiningunum sett fram dæmi um skýringar sem geta lýst eiginleikum áhrifanna. Bent er á að taka þurfi tillit til staðsetningar og eðlis hverrar framkvæmdar fyrir sig. Þannig geti t.d. bein áhrif framkvæmda á tiltekinn umhverfisþátt verið afturkræf í sumum tilfellum en óafturkræf í öðrum.
Bein áhrif geta verið skerðing á gróðri, varpsvæðum, jarðmyndunum og fornleifum, svo dæmi séu tekin. Einnig geta bein áhrif orðið á loftgæði og hávaða.
Óbein áhrif eru áhrif á umhverfisþætti sem ekki eru bein afleiðing framkvæmdar en þó má rekja til framkvæmdarinnar, t.d. breyting á gróðri vegna hækkaðrar grunnvatnsstöðu.
Jákvæð áhrif geta falist í auknu umferðaröryggi, auknum atvinnumöguleikum og svo framvegis.
Áhrif eru neikvæð ef þau skerða eða rýra gildi tiltekins eða tiltekinna umhverfisþátta á beinan eða óbeinan hátt. Til dæmis hávaði í íbúðabyggð, skerðing á útsýni, jarðvegs- og gróðureyðing, röskun á jarðmyndunum og fleira.
Varanleg áhrif verða til dæmis þegar ný íbúðahverfi eru byggð á lítt snortnu landi en tímabundin áhrif geta svo orðið á framkvæmdatíma, s.s. með aukinni umferð og hávaða.
Vægiseinkunnir
Við mat á áhrifum framkvæmdar þarf svo að meta vægi þeirra, t.d. verulega jákvæð, talsvert jákvæð, óveruleg, talsvert neikvæð eða verulega neikvæð á tiltekna umhverfisþætti s.s. loft, vatn, jörð vistkerfi, heilsu og öryggi. Það þarf einnig að gera hvað varðar framkvæmdina í heild sinni.
Skipulagsstofnun bendir á að vægi áhrifa og vægiseinkunn sé ávallt matskennd, jafnvel þótt liggi fyrir tiltekin og skýr viðmið í stefnumörkum stjórnvalda, lögum og reglugerðum eða alþjóðasamningum. „Almennt má segja að vægi áhrifa fari eftir eðli, gerð, umfangi, tíðni og tímalengd umhverfisáhrifa, hverjar séu líkur á áhrifum og hvort þau séu óafturkræf að teknu tilliti til viðkvæmni fyrirhugaðs framkvæmda- og áhrifasvæðis. Allt eru þetta þættir sem leggja þarf mat á í matsvinnunni til að komast að niðurstöðu um vægi áhrifa á tiltekinn umhverfisþátt.“
Að auki bendir Skipulagsstofnun á að hafa þurfi í huga að áhrif framkvæmdar á einstakan umhverfisþátt geta verið neikvæð en um leið geti þau haft jákvæð áhrif á annan umhverfisþátt. Neikvæðu áhrifin geti þó verið það veruleg og afgerandi að þrátt fyrir jákvæð áhrif á tiltekna þætti vegi þau ekki upp á móti þeim neikvæðu, þannig að áhrif framkvæmdarinnar í heild sinni teljast umtalsverð.
Í leiðbeiningunum eru lögð til hugtök sem lúta að vægi áhrifa. „Þetta er gert í því skyni að stuðla að samræmingu í hugtakanotkun þegar komist er að niðurstöðu um vægi á einstaka umhverfisþætti.“
Hugtökin eru eftirfarandi:
Verulega jákvæð: Áhrif framkvæmdar á umhverfisþátt bæta hag mikils fjölda fólks og/eða hafa jákvæð áhrif á umfangsmikið svæði. Sú breyting eða ávinningur sem hlýst af framkvæmdinni er oftast varanleg. Áhrifin eru oftast á svæðis-, lands- og/eða heimsvísu en geta einnig verið staðbundin.
Talsverð jákvæð: Áhrif framkvæmdar á umhverfisþátt taka ekki til umfangsmikils svæðis en svæðið kann að vera viðkvæmt fyrir breytingum, m.a. vegna náttúrufars og fornminja. Áhrifin geta verið jákvæð fyrir svæðið og/eða geta verið jákvæð fyrir fjölda fólks. Áhrifin geta verið varanleg og í sumum tilfellum afturkræf. Áhrif geta verið stað-, svæðisbundin og/eða á landsvísu.
Óveruleg: Áhrif framkvæmdar á umhverfisþátt eru minniháttar með tilliti til umfangs svæðis og viðkvæmni þess fyrir breytingum ´samt fjölda fólk sem verður fyrir áhrifum. Áhrifin eru í mörgum tilfellum tímabundin og að mestu afturkræf. Áhrifin eru oftast stað- eða svæðisbundin.
Talsverð neikvæð: Áhrif framkvæmdar á umhverfisþátt taka ekki til umfangsmikils svæðis en svæðið kann að vera viðkvæmt fyrir breytingum m.a. vegna náttúrufars eða fornminja. Áhrifin geta verið neikvæð fyrir svæðið og/eða geta valdið fjölda fólks ónæði eða óþægindum. Áhrifin geta verið varanleg og í sumum tilfellum óafturkræf.
Veruleg neikvæð: Áhrif framkvæmdar á umhverfisþátt skerða umfangsmikið svæði og/eða svæði sem er viðkvæmt fyrir breytingum og/eða rýra hag mikils fjölda fólks. Sú breyting eða tjón sem hlýst af framkvæmdinni er oftast varanleg og yfirleitt óafturkræf.
Miðað við skilgreiningar Skipulagsstofnunar á hugtakinu „talsvert neikvæð“ telur Umhverfisstofnun að endurræsing kísilverksmiðjunnar í Helguvík og stækkun hennar gæti valdið fjölda fólks ónæði eða óþægindum og að áhrifin gætu orðið varanleg og í sumum tilfellum óafturkræf.