Smitsjúkdómastofnun Þýskalands hefur miklar áhyggjur af fjölgun nýrra kórónuveirusmita í landinu. Í gær greindu yfirvöld í Bæjaralandi frá því að hópsýking væri komin upp meðal farandverkamanna á ávaxta- og grænmetisbýli við bæinn Mamming. 174 verkamenn, um þriðjungur allra sem þar starfa, hafa greinst með veiruna.
Heilbrigðisyfirvöld hafa sett býlið í einangrun en þar starfa verkamenn frá Rúmeníu, Búlgaríu, Ungverjalandi og Úkraínu. Hinir sýktu hafa verið settir í einangrun og aðskildir frá öðrum starfsmönnum á býlinu.
Verkafólk á öðrum býlum í nágrenninu munu einnig fara í sýnatöku. Heilbrigðisyfirvöld segja það nauðsynlegt til að koma í veg fyrir enn fleiri hópsýkingar. Þá verður öllum 3.300 íbúum bæjarins Mamming boðið að koma í sýnatöku.
Lestu meira
Þjóðverjar hafa glímt við fleiri hópsmit í landbúnaði og iðnaði síðustu vikur. Gríðarlegur fjöldi smita hefur m.a. greinst meðal starfsmanna í kjötvinnslum og sláturhúsum. Oft eru þessar verksmiðjur mannaðar útlendingum, farandverkafólki sem bæði vinnur og býr saman við þröngan kost og ferðast svo til og frá vinnu í sömu rútunum.
Smitsjúkdómastofnunin bendir einnig á að hópsmit hafi nýverið komið upp á hjúkrunarheimilum og í húsnæði hælisleitenda og flóttamanna.