Alma Möller landlæknir minnti á það á upplýsingafundi almannavarna í dag að snemmgreining hefði verið einn af hornsteinum okkar viðbragða í faraldrinum. Því þyrftu allir að vera sérstaklega á varðbergi nú – hefði fólk einkenni og minnsta grun um smit ætti það þegar í stað að láta taka sýni.
Alma minnti einnig á mikilvægi þess að verja viðkvæma hópa í samfélaginu; fólk með undirliggjandi sjúkdóma og aldraða. Samráðshópur hjúkrunarheimila kom saman til fundar í dag og fór yfir stöðuna. Leiðbeiningar verða uppfærðar og birtar eftir helgi, sagði hún. „Það sem var ákveðið var að reyna eins og hægt er að starfsmenn sem koma erlendis frá komi ekki til vinnu fyrr en að lokinni fjórtán daga sóttkví.“
Sagði hún að nú ætti aðeins einn aðstandandi að heimsækja hvern íbúa á hjúkrunarheimili og að deildir innan heimilanna ættu að einangra sig hver frá annarri eins og best verði á kosið og að starfsmenn ættu ekki að fara á milli deilda nema að brýna nauðsyn bæri til.
Þar sem staðbundin smit eru í samfélaginu muni hjúkrunarheimili hins vegar ganga lengra með frekari heimsóknartakmarkanir.
Alma fór yfir leiðbeiningar um grímunotkun og sagði þær aldrei koma í stað annarra sýkingavarna, s.s. handhreinsun og þrif á snertiflötum. Þær ætti að nota í lokuðum rýmum þar sem ekki væri hægt að viðhafa 2 metra regluna. „Það er mjög mikilvægt að fólk gæti hreinlætis þegar það er að umgangast grímurnar. Það þarf að þvo eða spritta hendur fyrir og eftir að gríman er sett upp. Það er æskilegast að nota einnota grímur og það á að skipta ef þær verða rakar eða búnar að vera lengur í notkun en fjóra tíma. Það er hægt að nota margnotagrímur úr taui en þær þarf að þvo daglega.“
Landlæknir ítrekaði að ekki er mælt með almennri grímunotkun á almannafæri.
„Að lokum ætla ég að þakka almenningi sem hefur brugðist vel við og af æðruleysi þó að vissulega hitti þessar aðgerðir sem kynntar voru í gær misjafnlega fyrir. Mér finnst fólk almennt sýna mikinn skilning og ég veit að það mun enginn láta sitt eftir liggja enda mikið í húfi. Skynsemin ræður sagði viðmælandi á förnum vegi í sjónvarpsfréttum. Við þurfum öll að sýna yfirvegun, við þurfum að tala af varfærni og skynsemi, notum ekki stærri orð en þörf er á og völdum ekki öðrum kvíða.“
Sagði hún einhverjum finnast of lítið gert en öðrum of mikið en að sóttvarnalæknir reyni að fara bil beggja. „Það hefur alltaf verið helsta markmiðið að grípa ekki til harðari ráðstafana en þörf er á.
Þessi veira er sjálfri sér samkvæm; hún rís upp þegar slakað er á og það kæmi ekki á óvart þótt við yrðum í því að herða og slaka þar til bóluefni er fram komið.“